Enski boltinn

Silva: Segir ekki nei við Guardiola

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Silva sló í gegn með Monaco í vetur.
Silva sló í gegn með Monaco í vetur. vísir/getty
Manchester City landaði einum stærsta bitanum á leikmannamarkaðinum í gær þegar Bernando Silva skrifaði undir fimm ára samning við félagið.



City borgaði Monaco 43,6 milljónir punda fyrir þennan 22 ára gamla portúgalska miðjumann sem átti frábært tímabil í vetur.

„Þetta er frábær tilfinning. Ég er hjá einu af bestu liðum heims. Það er frábært að vera hluti af þessu félagi og fá þetta tækifæri,“ sagði Silva sem fékk úthlutað treyju númer 20.

Silva segist spenntur að spila undir stjórn Pep Guardiola, knattspyrnustjóra City.

„Ég er mjög ánægður að vera hluti af City-liðinu og ætla að gera mitt besta til að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum. Þú segir ekki nei þegar þú færð tækifæri til að spila undir stjórn Guardiola. Hann er einn af bestu þjálfurum heims, ef ekki sá besti,“ sagði Silva.

„Það sem hann gerði hjá Barcelona og Bayern München var stórkostlegt og við búumst við því að hann vinni titla hér. Það verður frábært að vinna með honum.“

Silva skoraði átta mörk og gaf níu stoðsendingar í frönsku úrvalsdeildinni í vetur. Monaco vann hana í fyrsta sinn í 17 ár. Þá komst liðið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu en á leiðinni þangað sló það m.a. City úr leik.

Þótt það sé ekki liðin vika síðan City lék sinn síðasta leik á tímabilinu er Guardiola byrjaður að taka til í leikmannahópi liðsins.

Á fimmtudaginn bárust fréttir af því að Jesús Navas, Gaël Clichy, Willy Caballero og Bacary Sagna hefðu yfirgefið City. Þeir voru allir með lausan samning. Fleiri leikmenn gætu verið á förum frá City sem endaði í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vetur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×