Erlent

Taívan verður fyrsta land Asíu til að leyfa samkynja hjónabönd

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mikil gleði braust út meðal andstæðinga laganna þegar niðurstaðan var tilkynnt.
Mikil gleði braust út meðal andstæðinga laganna þegar niðurstaðan var tilkynnt. vísir/epa
Hæstiréttur Taívan komst í gær að þeirri niðurstöðu að lög sem banna samkynja fólki að ganga í hjónaband bryti gegn stjórnarskrá landsins. Landið gæti orðið hið fyrsta í Asíu til að leyfa samkynja hjónabönd.

Yfirvöld í Taípei auk baráttumanns fyrir réttindum samkynhneigðra höfðu látið á það reyna hvort lögin brytu í bága við stjórnarskrána. Tólf dómarar af fjórtán komust að þeirri niðurstöðu að svo væri. Stjórnvöld í landinu hafa tvö ár til þess að laga landslög að niðurstöðu dómstólsins.

Baráttumenn fyrir réttindum LBGT-einstaklinga komu saman víðsvegar í Taívan og fögnuðu niðurstöðunni. Einnig komu saman hópar fólks sem telja hana fáránlega og vilja halda í bannið.

Talið er að íhaldsmenn í landinu muni halda áfram að leggja stein í götu réttindabaráttunnar. Hafa stjórnmálamenn úr þeirra röðum meðal annars lofað því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort rétt sé að leyfa samkynja hjónabönd.

Stuðningur við samkynja hjónabönd hefur aukist mjög eftir að Tsai Ing-wen, fyrsti kvenforseti landsins, náði kjöri í maí í fyrra.

„Þetta er sögulegur dagur. Taívan mun verða sem loftvog í baráttunni fyrir auknum mannréttindum í álfunni,“ segir Huang Di-ying, lögmaðurinn sem flutti málið fyrir Hæstarétti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×