Þrátt fyrir að vera einum fleiri í 39 mínútur tókst Randers ekki að vinna OB í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili. Lokatölur 1-1.
Hannes Þór Halldórsson stóð í marki Randers sem hefur verið á ágætri siglingu að undanförnu.
Staðan var markalaus í hálfleik en seinni hálfleikurinn byrjaði vel fyrir Randers. Á 51. mínútu fékk Kenneth Petersen, miðvörður OB, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þremur mínútum síðar kom Joel Allansson Randers yfir.
En lærisveinar Ólafs Kristjánssonar héldu ekki út og Rasmus Jonsson jafnaði metin á 83. mínútu og þar við sat. Seinni leikur liðanna fer fram á heimavelli Randers þarnæsta mánudag.
Þrír Íslendingar komu við sögu þegar Esbjerg og Horsens gerðu 1-1 jafntefli í umspili um áframhaldandi sæti í dönsku úrvalsdeildinni.
Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn á miðjunni hjá Esbjerg.
Elfar Freyr Helgason og Kjartan Henry Finnbogason léku allan leikinn fyrir Horsens sem á seinni leikinn á heimavelli.
Brighton
Arsenal