Innlent

Vonbrigði að þurfa að láta af vöktuninni

"Að mínu mati er þetta ofboðslega þröng túlkun á þessum lögum og reglum sem sníður okkur afar þröngan stakk.“
"Að mínu mati er þetta ofboðslega þröng túlkun á þessum lögum og reglum sem sníður okkur afar þröngan stakk.“ Vísir
Rafræn vöktun IKEA utan lóðarmarka fyrirtækisins er óheimil. Sömu sögu er að segja af sérstakri vöktun og skráningu upplýsinga um einstaklinga sem fyrirtækið telur óæskilega í versluninni. Þetta felst í ákvörðun Persónuverndar. 

„Að mínu mati er þetta ofboðslega þröng túlkun á þessum lögum og reglum sem sníður okkur afar þröngan stakk. Mér finnst líka skjóta skökku við að fyrirtæki á borð við Facebook og YouTube geti látið upplýsingar um okkur ganga kaupum og sölum en við megum ekki passa upp á okkar eigin eigur,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi.

Þórarinn segir að vöktunin hafi gefið góða raun. Myndavélin sem vaktar bílastæðin hafi komið að notum þegar keyrt hefur verið á bíla, ef einhver slasast á bílastæðinu eða ef einhver heldur því fram að innkaupakerra hafi skemmt bíl sinn. Sömu sögu sé að segja af bílnúmeravöktuninni. Nú viti starfsmenn um leið ef einhver sem hefur valdið tjóni eða stolið mæti í verslunina.

„Ég á eftir að fara yfir þetta með lögfræðingi en niðurstaðan er mikil vonbrigði,“ segir Þórarinn. „Ein af forsendum stofnunarinnar er sú að svið myndavélarinnar nái út fyrir lóðarmörk IKEA. Við eigum eftir að kanna hvort þetta sé heimilt ef önnur fyrirtæki á svæðinu samþykkja vöktunina.“

Leiðrétting: Persónuvernd vill koma þeim upplýsingum á framfæri að hægt er að bera ákvörðun stofnunarinnar undir dómstóla. Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var haft eftir að sú væri ekki raunin. Þetta leiðréttist hér með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×