Fótbolti

Fyrstur til að skora þrennu fyrir Frakkland í 17 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giroud er kominn með 26 landsliðsmörk.
Giroud er kominn með 26 landsliðsmörk. vísir/getty
Olivier Giroud varð í gær fyrsti Frakkinn til að skora þrennu í landsleik í 17 ár þegar Frakkland rústaði Paragvæ, 5-0, í vináttulandsleik í Rennes.

Síðasti Frakkinn sem skoraði þrennu í landsleik var David Trezeguet sem skoraði þrjú mörk í sigri Frakklands á úrvalsliði FIFA árið 2000.

Giroud er nú kominn með 26 mörk í 62 landsleikjum. Hann er níundi markahæsti leikmaður franska landsliðsins frá upphafi.

Giroud kom Frökkum yfir strax á 6. mínútu eftir sendingu Ousmane Dembélé og sjö mínútum síðar skallaði hann boltann í netið eftir sendingu Dimitris Payet.

Giroud fullkomnaði svo þrennuna á 69. mínútu. Moussa Sissoko og Antoine Griezmann skoruðu hin mörk franska liðsins.

Leikurinn í gær var undirbúningur fyrir leik gegn Svíum í undankeppni HM 2018 á föstudaginn kemur. Frakkar mæta svo Englendingum í vináttulandsleik 13. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×