Erlent

Demókratar vilja halda íhaldssömum dómara

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Anthony Kennedy (t.v.) ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta og Neil Gorsuch hæstaréttardómara.
Anthony Kennedy (t.v.) ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta og Neil Gorsuch hæstaréttardómara. NordicPhotos/AFP
Hópur Demókrata hefur kallað eftir því að hæstaréttardómarinn Anthony Kennedy dragi það í lengstu lög að setjast í helgan stein. Heimildir ytra herma að Kennedy íhugi alvarlega að láta af embætti.

Kennedy settist í Hæstarétt í ársbyrjun 1988 en þá var hann rétt rúmlega fimmtugur. Bandarískir hæstaréttardómarar geta setið út ævina, kjósi þeir svo, en fólk í kringum hinn áttræða Kennedy segir að hann velti því fyrir sér að hætta fyrr.

Þrátt fyrir að Kennedy hafi verið skipaður af Repúblíkana, og þyki hallast til hægri, vilja Demókratar halda honum meðan honum endist ævin. Eða að minnsta kosti þangað til að forsetatíð Donalds Trump rennur sitt skeið. Óttast þeir að ef Kennedy hættir muni Trump skipa einhvern enn íhaldssamari sem myndi hafa gífurleg áhrif á réttinn.

Í apríl síðastliðnum var meirihlutinn, til að öldungadeildin geti fallist á tilnefningu hæstaréttardómara, minnkaður. Áður þurfti sextíu atkvæði, af hundrað þingmönnum, til að komast í gegn en sú tala hefur nú verið lækkuð niður í 51.

„Akkúrat núna er Kennedy mikilvægasti maðurinn í Bandaríkjunum. Hann hefur oddaatkvæðið í höndum sér í málum þar sem dómara greinir á,“ segir Elizabeth Wydra, einn af forsvarsmönnum þeirra sem vilja Kennedy áfram.

Í málefnum sem varða fjármál og trúarbrögð hefur Kennedy verið með öðrum hægrisinnuðum dómurum við réttinn. Í málum sem varða fóstureyðingar og réttindi samkynhneigðra hefur hann hins vegar snúist á sveif með frjálslyndari dómurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×