Fótbolti

Einkunnir íslenska liðsins | Aron Einar maður leiksins

Aron Einar átti frábæran leik.
Aron Einar átti frábæran leik. vísir/ernir
Ísland komst upp að hlið Króatíu í I-riðli undankeppni HM 2018 eftir 1-0 sigur í leik liðanna á Laugardalsvelli í kvöld.

Hörður Björgvin Magnússon skoraði eina mark leiksins á lokamínútunni.

Aron Einar Gunnarsson var að mati Vísis maður leiksins í dag með átta í einkunn.

Einkunnagjöfina má sjá hér að neðan.

Byrjunarlið:

Hannes Þór Halldórsson, markvörður 7

Hafði merkilega lítið að gera, þökk sé frábærum varnarleik Íslendinga. Varði langskot frá Marcelo Brozovic og greip vel inn í.

Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður 7

Lenti ekki í vandræðum með Mario Mandzukic og var að vanda traustur í vörninni. Átti frábæra fyrirgjöf á Jóhann Berg skömmu áður en sigurmarkið kom.

Kári Árnason, miðvörður 8

Sterkur í vörninni og samvinna hans og Ragnars var einu sinni sem oftar til fyrirmyndar. Sendingarnar út úr vörninni misjafnar.

Ragnar Sigurðsson, miðvörður 8

Öruggur og yfirvegaður. Engin vandræði á þeim bænum. Ekkert ryð í Ragnari þrátt fyrir rakmarkaðan spilatíma í vetur.

Hörður Björgvin Magnússon, vinstri bakvörður 8

Hans langbesti landsleikur og leikur sem hann mun sennilega aldrei gleyma. Sterkur í loftinu og stóðst öll próf sem Króatarnir lögðu fyrir hann. Og skoraði auðvitað sigurmarkið.

Jóhann Berg Guðmundsson, hægri kantur 6

Beinskeyttur framan af og var hættulegur úti hægra megin. Komst lítið í takt við leikinn í seinni hálfleik þegar við héldum boltanum illa.

Aron Einar Gunnarsson, miðjumaður 8 - maður leiksins

Frábær leikur hjá fyrirliðanum. Vann gríðarlega vel, slökkti elda út allan völl og gaf miðjumönnum Króatíu lítinn tíma með boltann. Skilaði boltanum vel frá sér.

Emil Hallfreðsson, miðjumaður 7

Fékk tækifæri á miðjunni sem hann beðið lengi eftir. Á köflum full lengi að skila boltanum frá sér. Varðist vel og gaf Aroni Einari svigrúm til að fara framar í pressu.

Birkir Bjarnason, vinstri kantmaður 6

Átti ágætis spretti og vann vel.

Gylfi Þór Sigurðsson, framherji 8

Lagði upp sigurmarkið með einni af sínum frábæru hornspyrnum. Var gríðarlega duglegur og pressaði varnarmenn Króata stíft. Gerði vel þegar hann fékk boltann sem var full sjaldan.

Alfreð Finnbogason, framherji 6

Vann vel en fékk úr litlu að moða.

Varamenn:

Björn Bergmann Sigurðarson - (Kom inn á fyrir Alfreð Finnbogason á 77. mínútu)

Kom inn á með kraft og aukinn sóknarþunga. Spilaði ekki nógu lengi til að fá einkunn.

Rúrik Gíslason - (Kom inn á fyrir Birki Bjarnason á 80. mínútu)

Spilaði ekki nógu lengi til að fá einkunn.

Sverrir Ingi Ingason - (Kom inn á fyrir Ragnar Sigurðsson á 90. mínútu)

Spilaði ekki nógu lengi til að fá einkunn.


Tengdar fréttir

Twitter eftir leik: „Hörður Björgvin axlaði ábyrgð“

Leik Íslands og Króatíu var að ljúka rétt í þessu en Ísland sigraði 1-0. Hörður Björgvin tryggði okkur sigurinn á 90 mínútu. Hér má sjá viðbrögðin á Twitter yfir leiknum en Emil og Hörður voru vinsælir.

Heimir: Þetta var svo asnalegt mark

Heimir Hallgrímsson kom brosandi til móts við blaðamenn á fundi eftir 1-0 sigurinn í Laugardalnum í dag. Hörður Björgvin Magnússon skoraði sigurmarkið undir lok venjulegs leiktíma.

Gylfi um Hörð Björgvin: Var frábær

Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður Íslands, var virkilega ánægður með sigurinn gegn Króatíu í kvöld. Gylfi gladdist fyrir hönd Harðar Björgvins sem skoraði sigurmarkið.

Aron Einar: Fundirnir voru langir en borguðu sig

"Uppleggið virkaði og við fórum vel yfir þá. Fundirnir voru langir, en margborguðu sig í dag," sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, eftir sigurinn frækna gegn Króötum á Laugardalsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×