Fótbolti

Voru búnir að bíða í 426 mínútur eftir marki á móti Króatíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon fagnar sigurmarki sínu.
Hörður Björgvin Magnússon fagnar sigurmarki sínu. Vísir/AFP
Hörður Björgvin Magnússon tryggði Íslandi 1-0 sigur á Króatíu í undankeppni HM 2018 á Laugardalsvellinum í kvöld.  

Þetta var gríðarlega mikilvægt mark en með sigrinum náði íslenska liðið Króatíu að stigum á toppi riðilsins.

Þetta var fyrsti sigur Íslands frá upphafi á móti Króatíu og það er óhætt að segja að íslenska liðið hafi verið búið að bíða eftir þessu marki á móti Króatíu.

Íslenska liðið hafði ekki náð að skora í þremur leikjum á móti Króatíu á síðustu árum og það voru liðnar 426 mínútur og tæp tólf ár síðan að Ísland skoraði gegn Króatíu.

Hörður Björgvin skoraði eina mark leiksins eftir hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni.

Síðasta íslenska markið á móti Króatíu skoraði Eiður Smári Guðjohnsen þegar hann kom Íslandi í 1-0 á 24. mínútu í 1-3 tapi á móti Króatíu á Laugardalsvellinum 3. september 2005.

Króatar skoruðu þrjú síðustu mörkin í þessum leik í Laugardal í september 2005 og höfðu síðan skorað fjögur mörk til viðbótar í síðustu þremur landsleikjum.



Eiður Smári Guðjohnsen skorar markið sitt á móti Króatíu í september 2005.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×