Sport

Ísland féll úr 2. deild í Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsum íþróttum

Elías Orri Njarðarson skrifar
Aníta vann gullverðlaun í Tel Aviv í dag.
Aníta vann gullverðlaun í Tel Aviv í dag. visir/getty
Ísland er fallið úr 2. deild í Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsum íþróttum.

12 lönd voru í riðlinum og Ísland lenti í 11. sæti með 181.5 stig eftir daginn í dag. Moldavía fellur einnig niður um deild en þau voru með 168.5 stig í 12. sæti.

Fjórir íslenskir keppendur náðu inn á verðlaunapall á mótinu. Aníta Hinriksdóttir nældi sér í gullverðlaun í 800 metra hlaupi kvenna, Arna Stefanía Guðmundsdóttir vann silfurverðlaun í 400 metra hlaupi kvenna, Ásdís Hjálmsdóttir vann silfurverðlaun í spjótkasti kvenna og Hulda Þorsteinsdóttir vann bronsverðlaun í stangarstökki kvenna.

Nýtt Íslandsmet féll í 4x100 metra hlaupi þegar að íslenska liðið hljóp á 40,40 sekúndum. Þeir sem hlupu voru: Ari Bragi Kára­son, Björg­vin Brynj­ars­son, Ívar Krist­inn Ja­son­ar­son og Kol­beinn Höður Gunn­ars­son.

Kolbeinn Hörður Gunnarsson var með besta árangur Íslands í dag, þegar að hann varð fimmti í 200 metra hlaupi karla á 21,23 sekúndum en hans besti tími í greininni er 20.96 sekúndur.

Niðurstaðan er svekkjandi fyrir Ísland, sem fellur niður í 3. deildina og mun því keppa í henni í Evrópubikarkeppninni árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×