Enski boltinn

Salah orðinn leikmaður Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salah skrifar undir samning við Liverpool.
Salah skrifar undir samning við Liverpool. mynd/twitter-síða liverpool
Liverpool hefur gengið frá kaupunum á egypska landsliðsmanninum Mohamed Salah frá Roma.

Talið er að Liverpool hafi borgað 34 milljónir punda fyrir Salah. Hann er fyrsti leikmaðurinn sem félagið kaupir í sumar. Salah mun spila í treyju númer 11 hjá Liverpool.

„Ég er mjög spenntur að vera hér og mjög glaður. Ég mun leggja mig 100% fram og gefa allt fyrir félagið og mig langar að vinna eitthvað með því,“ sagði hinn 25 ára gamli Salah sem getur leikið allar stöður framarlega á vellinum.

Salah átti frábært tímabil með Roma í vetur. Hann skoraði 15 mörk og gaf 11 stoðsendingar í 31 leik í ítölsku úrvalsdeildinni.

Salah gekk í raðir Chelsea frá Basel í janúar 2014 en tókst þó aldrei að festa sig í sessi hjá Lundúnaliðinu.

Hann var lánaður til Fiorentina seinni hluta tímabilsins 2014-15 og tímabilið á eftir lék hann svo sem lánsmaður með Roma. Rómverjar voru ánægðir með frammistöðu Egyptans og keyptu hann frá Chelsea sumarið 2016.

Salah hefur skorað 29 mörk í 52 leikjum fyrir egypska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×