Enski boltinn

Cole: Synd að Hazard meiddist en það gæti verið gott fyrir Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eden Hazard í leik með Chelsea.
Eden Hazard í leik með Chelsea. Vísir/Getty
Joe Cole, fyrrverandi leikmaður Chelsea, vonast til að meiðsli Eden Hazard komi í veg fyrir að hann fari til Real Madrid í sumar en spænska félagið hefur verið sterklega orðað við hann í langan tíma.

Cole er á því að Hazard sé ekki bara besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar heldur einn sá besti í heiminum. Hazard er svo góður, segir Cole, að Chelsea getur ekki fundið staðgengil hans.

Belgíski framherjinn meiddist illa á æfingu með landsliðinu eftir að tímabilinu lauk og gæti hann misst af nokkrum leikjum í byrjun næstu leiktíðar. Þetta gæti hjálpað Chelsea að halda honum.

„Hann er algjörlega frábær. Hann er einn sá besti í heiminum. Það er synd að hann meiddist með belgíska landsliðinu en miðað við orðrómana sem voru í gangi var þetta kannski gott fyrir Chelsea ef maður er svolítið sjálfselskur. Þetta þýðir að kannski getum við haldið honum í eitt tímabil til viðbótar,“ segir Cole við Goal.com.

„Fyrir mér er hann besti leikmaður Chelsea og besti leikmaður deildarinnar. Ég get ekki hrósað honum nógu mikið. Það yrði mjög dýrt að reyna að finna staðgengil hans núna og ég veit ekki hver sá maður ætti að vera,“ segir Joe Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×