Innlent

17 ára piltur skallaði lögreglumann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það kom ýmislegt inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Það kom ýmislegt inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Eyþór
Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var lögreglan kölluð út í heimahús í Kópavogi en þar var 17 ára piltur í annarlegu ástandi og réðist illa við hann. Pilturinn var handtekinn af lögreglu en tókst þó að skalla lögreglumann áður en hann var settur í handjárn.

Lögreglumaðurinn fór á slysadeild en pilturinn var vistaður í fangageymslu lögreglu og verður yfirheyrður síðar.

Um klukkan hálfeitt var síðan tilkynnt frá öryggisfyrirtæki að þjófavörn væri í gangi á veitingastað í Vesturbænum. Sofandi maður var þar innandyra en búið að loka staðnum. Lögregla fór á vettvang og tókst að vekja manninn eftir þó nokkurn tíma sem brást illa við og hótaði að ráðast á lögreglumennina.

Maðurinn var því handjárnaður og fluttur á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Þar var reynt að ræða við hann og eftir talsverðan tíma fór málið að skýrast. Kom í ljós að á veitingastaðnum  hafði verið starfsmannapartý en maðurinn hefði orðið eftir til að ganga frá. Hann hefði sett þjófavarnakerfið á en svo sofnaði. Þegar hann róaðist ók lögreglan honum heim.

Upp úr klukkan hálftvö fengu svo lögreglumenn sem voru í radarmælingum í Ártúnsbrekku útkall um að ekið hefði verið á kött í Austurbænum, en kötturinn var sagður lifandi. Stuttu síðar mældu þeir hraða jeppabifreiðar sem var ekið austur Miklubraut vel yfir hámarkshraða og gáfu ökumanninum merki um að stöðva.

Hann gerði það, kom hlaupandi að lögreglubílnum og sagðist vera að flýta sér á dýraspítalann í Mosfellsbæ með köttinn sem ekið hafði verið á og lögreglumenn voru að fara sinna. Ökumanninum var veitt tiltal vegna akstursins en er ekki er vitað hvernig kisu reiddi af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×