Enski boltinn

Annað tilboð komið frá Everton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hefur Gylfi leikið sinn síðasta leik fyrir Swansea?
Hefur Gylfi leikið sinn síðasta leik fyrir Swansea? vísir/getty
Everton hefur lagt fram nýtt tilboð í Gylfa Þór Sigurðsson samkvæmt heimildum Vísis. Málið er þó ekki komið svo langt að hann fari í læknisskoðun í dag, líkt og sumir enskir fjölmiðlar hafa fullyrt.

Gylfi hefur lengi verið orðaður við Everton og Swansea hefur þegar hafnað tilboðum frá félaginu. Leicester mun einnig hafa áhuga á íslenska landsliðsmanninum, sem var besti leikmaður Swansea á síðustu leiktíð og einn stoðsendingahæsti leikmaður ensku deildarinnar.

Mirror segir að Everton hafi boðið 30 milljónir punda í Gylfa og sé reiðubúið að greiða honum 135 þúsund pund í vikulaun. Áður hefur verið fullyrt að Swansea vilji fá 40 milljónir punda fyrir Gylfa Þór.

Everton er á góðri leið með að ganga frá samningum við Wayne Rooney, leikmann Manchester United, eftir að hafa selt Romelu Lukaku til United á dögunum.

Félagið hefur látið til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar og keypt Davy Klaaseen frá Ajax sem og þá Jordan Pickford frá Sunderland og Michael Keane frá Burnley sem eru báðir ungir enskir landsliðsmenn.

Everton hefur einnig fengið Henry Onykuru frá Eupen og Sandro Ramirez frá Malaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×