Erlent

Hitabylgjan í Evrópu tífalt líklegri vegna loftslagsbreytinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Á annað þúsund slökkviliðsmanna tóku þátt í að slökkva skógareldana í Portúgal í júní.
Á annað þúsund slökkviliðsmanna tóku þátt í að slökkva skógareldana í Portúgal í júní. Vísir/EPA
Loftslagsbreytingar af völdum manna gerðu hitabylgjuna sem gekk yfir vestanverða Evrópu í júní tífalt líklegri en ella á sumum stöðum. Tugir manna fórust í skógareldum í Portúgal og gripið var til neyðarráðstafana í þremur löndum vegna hitans.

Vísindamenn sem leitast við að greina hversu stórt hlutverk hnattræn hlýnun leikur í einstökum veðurviðburðum hefur komist að þessari niðurstöðu. Bera þeir saman mögulegt veður með og án þeirrar hnattrænu hlýnunar sem hefur átt sér stað síðustu öldina.

„Við fundum afar sterkt merki,“ segir Friederike Otto frá Oxford-háskóla sem vinnur við verkefnið World Weather Attribution, um hitabylgjuna í Evrópu við breska ríkisútvarpið BBC.

Þannig gera núverandi aðstæður hitabylgjur tífalt líklegri á Spáni og í Portúgal.

Hitamet slegin víða

Miðgildishiti í vestanverðri Evrópu var þremur gráðum yfir meðaltali í júní. Hitamet voru slegin víða. Á Bretlandi mældist mesti hiti á júnídegi í fjörutíu ár. Í Frakklandi var met slegið yfir heitustu júnínótt þegar meðalhitinn í landinu náði 26,4°C.

Yfirvöld í Frakklandi, Sviss og Hollandi gripu til neyðarráðstafana til að bregðast við hitanum.

Alls fórust 64 í skógareldunum í Portúgal og á Spáni var 1.500 manns skipað að yfirgefa heimili sín og sumarbústaði vegna elda.


Tengdar fréttir

Þriggja daga þjóðarsorg í Portúgal

Ríkisstjórnin í Portúgal hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna fólksins sem fórst í skógareldunum nærri Coimbra í Portúgal. Tala látinna, sem fréttastofa BBC gefur upp, hefur hækkað og er því nú haldið fram að 62 hafi látist. Óttast er að tala látinna hækki.

Tugir farast í skógareldum í Portúgal

Að minnsta kostir 43 hafa farist í miklum skógareldum nærri Coimbra í Portúgal, þar á meðal nokkur fjöldi fólks sem var að reyna að komast undan í bílum sínum. Um 1.700 slökkviliðsmenn berjast við skógarelda um allt landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×