Erlent

Kínverskur maður beðinn afsökunar vegna „hinseginbælingar“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá gleðigöngu hinseginfólks í Hong Kong, sjálfstórnarhéraði í Kína, í fyrra.
Frá gleðigöngu hinseginfólks í Hong Kong, sjálfstórnarhéraði í Kína, í fyrra. Vísir/Getty
Samkynhneigður, kínverskur maður hefur borið sigur úr býtum í baráttu sinni við geðheilbrigðisstofnun í bænum Zhumadian í Henan-héraði í Kína. Hann hafði verið lagður inn á sjúkrahúsið vegna samkynhneigðar sinnar en markmiðið með innlögninni var að bæla hana niður.

Eiginkona mannsins og önnur skyldmenni lögðu hann inn á sjúkrahúsið árið 2015. Maðurinn var neyddur til að taka inn lyf og þiggja sprautur í 19 daga vegna „ástands síns“ en meðferðinni var ætlað að gera hann gagnkynhneigðan. Sjúkrahúsinu hefur verið gert að greiða manninum bætur og biðja hann opinberlega afsökunar á meðferðinni.

Læknar á sjúkrahúsinu greindu manninn, sem er 38 ára gamall, með „kynhneigðarröskun“ en samkynhneigð var flokkuð sem geðsjúkdómur í Kína þangað til árið 2001.

Málefni hinsegin-fólks hafa hlotið æ stærri hljómgrunn í Kína á síðari árum. Ríkið á þó enn langt í land en talið er að milljónir samkynhneigðra séu fastir í hjónaböndum með fólki af gagnstæðu kyni vegna samfélagslegra viðhorfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×