Erlent

Unglingur handtekinn í tengslum við fimm sýruárásir í London

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregluþjónn í London. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Lögregluþjónn í London. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/AFP
Fimm sýruárásir voru gerðar á 90 mínútna tímabili í norðausturhluta Lundúna í gærkvöldi. Sextán ára unglingspiltur hefur verið handtekinn í tengslum við árásina.

Í frétt Breska ríkisútvarpsins segir að tveir menn beri ábyrgð á árásunum, sem gerðar voru í hverfunum Hackney, Stoke, Newington og Islington í gærkvöldi. Mennirnir skvettu ætandi efnum framan í vegfarendur en eitt fórnarlambanna hlaut „áverka sem munu breyta lífi þess til frambúðar.“

Unglingurinn, sem var handtekinn í tengslum við árásirnar, hefur verið yfirheyrður vegna gruns um að hafa valdið „alvarlegum, líkamlegum skaða á fólki“ og aðild að ráni.

Fimm árásir á 90 mínútum

Fyrsta árásin var gerð rétt fyrir hálf 11 í gærkvöldi að staðartíma. 32 ára karlmaður, sem keyrði á bifhjóli eftir Hackney Road, hlaut áverka á andliti eftir að tveir karlmenn á öðru bifhjóli réðust á hann.

Um 25 mínútum síðar var ráðist á annan karlmann í Islington. 40 mínútum eftir fyrstu árásina varð þriðja manneskjan fyrir sýruárás sem framkvæmd var af tveimur mönnum á bifhjóli á Shoreditch High Street. Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús en er ekki talið alvarlega slasað.

Um 20 mínútur yfir 11 barst lögreglu tilkynning um rán við Cazenove Road í Stoke Newington. Sýru hafði verið skvett í andlit manns á vettvangi en sá er talinn hafa hlotið „áverka sem munu breyta lífi hans til frambúðar.“

Síðasta árásin var gerð á mann á bifhjóli um 20 mínútum eftir að fyrrnefnt rán var framið. Árásarmennirnir skvettu ætandi efni framan í manninn við Chatsworth Road í Clapton og stálu að því búnu farartæki hans.

Sýruárásum fjölgað í Bretlandi síðustu ár

Lögreglustjóri Lundúnaborgar, Cressida Dick lýsti yfir þungum áhyggjum af aukinni tíðni sýruárása í borginni á blaðamannafundi í gær.

Sýruárásum hefur fjölgað mjög í Lundúnum síðustu ár en síðan 2010 hafa borist tilkynningar um yfir 1800 slíkar árásir í höfuðborginni. Á síðasta ári voru ætandi efni notuð í 458 tilfellum en tilkynnt var um 261 tilfelli árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×