Enski boltinn

Stjóri Swansea að gefast upp í baráttunni um Gylfa sem fer ekki með til Bandaríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í æfingaleik með Swansea í gærkvöldi.
Gylfi Þór Sigurðsson í æfingaleik með Swansea í gærkvöldi. Vísir/Getty
Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea City, fór langt með að henda inn hvíta handklæðinu í viðtali við BBC um framtíð Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá velska félaginu.

Þá liggur ljóst fyrir að íslenski landsliðsmaðurinn mun ekki fara með Swansea í æfingaferð liðsins til Bandaríkjanna.

Clement ræddi í viðtalinu um að viðskiptihliðin væri vissulega stór innan fótboltans og það þýddi að félagið yrði neytt til að selja Gylfa. 

Swansea hefur hafnað 40 milljón punda tilboði í Gylfa frá Leicester City og vill fá 50 milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn. 

„Ég hef sagt það mjög skýrt að ég vil að hann verði hér áfram. Stuðningsmennirnir vilja það og eigendurnir vilja það líka. Málið er að fótbolti snýst líka um að gera góð viðskipti,“ sagði Paul Clement.

„Við lentum í svipuðu með Jack Cork. Það var enginn að hugsa um að selja Jack en svo kom bara félag með virkilega gott tilboð í hann. Þetta gæti líka endað þannig með Gylfa,“ sagði Clement.

„Við viljum alls ekki í lenda í þeirri aðstöðu að þetta máli dragist á langinn, jafnvel út júlí og inn í ágúst þegar tímabilið er byrjað. Það er best að klára þetta sem fyrst,“ sagði Clement.

Paul Clement hrósar Gylfa fyrir fagmennsku nú þegar hann er kominn aftur til Swansea til að undirbúa sig fyrir komandi tímabil þegar allt bendir til þess að hann spili annarsstaðar á þessu tímabili. 

„Gylfi er mættur, hann er með hausinn skrúfaðan á og er að vinan sína vinnu. Ég vona að það haldi áfram. Hann er einn af okkar dýrmætustu leikmönnum. Hann sýndi það á síðasta tímabilið með mörkunum sínum og stoðsendingum. Hann var í aðalhlutverki í að halda liðinu upp í úrvalsdeildinni,“ sagði Clement.

Gylfi var með 9 mörk og 13 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hann hefur verið orðaður við bæði Everton og Leicester City en 50 milljón pund er svakalegur peningur. Hvort annað þeirra er tilbúið að greiða svo mikið fyrir íslenska landsliðsmanninn kemur væntanlega í ljós á næstunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×