Enski boltinn

Peningarnir streyma inn í enska boltann sem aldrei fyrr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skorar beint úr aukaspyrnu fyrir Swansea City á móti Manchester United á Old Trafford.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar beint úr aukaspyrnu fyrir Swansea City á móti Manchester United á Old Trafford. Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildin er alltaf að græða meiri og meiri pening og um leið setja ensku liðin ný gróðamet á hverju ári en þetta kemur fram í nýjustu samantekt Deloitte á tekjum liða í vinsælustu fótboltadeild í heimi.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni voru með 3,6 milljarða punda í tekjur á keppnistímabilinu 2015-16 og er þetta níu prósenta hækkun frá tímabilinu á undan. BBC tók saman niðurstöður úr skýrslu Deloitte.  

Sjónvarpstekjurnar eru nánast helmingur þessarar upphæðar en alls fengu liðin samanlagt 1,9 milljarða punda fyrir sjónvarpréttinn á ensku úrvalsdeildinni.

Launakostnaður er samt alltaf að aukast en hann hækkað um tólf prósent á milli ára og var samanlagt 2,3 milljarðar punda á þessu tímabili. Þá eyddu ensku liðin líka mun meiri pening í kaup á nýjum leikmönnum.

Það átti stóran þátt í hækkuninni að UEFA jók framlög sín til ensku liðanna um hundrað milljónir punda en þeir peningar komu til vegna hagstæðra sjónvarpssamninga UEFA.

Það er þó ekki bara í Englandi sem peningarnir streyma inn í fótboltaheiminum því samanlagðar tekjur evrópska fótboltafélaga hækkuðu um þrettán prósent frá 2014-15 tímabilinu. Allar fimm stóru deildirnar græddu meira 2015-16 tímabilið en veturinn á undan.

Ensku úrvalsdeildin náði þannig að afla meiri peninga á umræddu tímabili þrátt fyrir að það væri síðasta árið í gamla sjónvarpssamningnum. Nýr risa sjónvarpssamningur mun síðan örugglega sjá til þess að tekjurnar munu halda áfram að aukast þegar Deloitte hefur aflað sér upplýsinga um 2016-17 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×