Innlent

Unglingagengi halda Glæsibæ í heljargreipum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Byrjað er að loka aðalrými Glæsibæjar fyrr á kvöldin.
Byrjað er að loka aðalrými Glæsibæjar fyrr á kvöldin. Vísir/Vilhelm
Hópar ungmenna hafa síðustu misseri hrellt verslunareigendur í Glæsibæ og er nú svo komið að utanaðkomandi er meinaður aðgangur að aðalrými hússins eftir klukkan 19 á kvöldin.

Samkvæmt heimildum Vísis hafa krakkarnir framið margvísleg spellvirki í húsinu; skemmt hurðir, dreift rusli, fært húsgögn og uppstillingar húsenda á milli og stolið úr verslunum. Þá hafi skilti verslunar verið brotið í síðustu viku og braki þess kastað um gólf Glæsibæjar.

Í samtali við Vísi segir einn verslunarstjóri að aðkoman hafi þannig oft verið ógeðfelld þegar hann hefur mætt til vinnu á morgnanna. Vísir hefur í morgun hringt í verslunareigendur í húsinu sem staðfesta frásögn hans.

Lögregla kölluð til

Haft hefur verið samband við lögreglu og barnaverndaryfirvöld vegna framgöngu ungmennanna og að sögn verslunareiganda var í sumar gripið til aðgerða til að sporna við ástandinu.

Hægt hefur verið um árabil að ganga inn í aðalrými Glæsibæjar í gegnum verslanir Iceland, áður 10/11, og Tokyo Sushi eftir opnunartíma annarra verslana.

Samkvæmt heimildum Vísis fengu forráðamenn þessara fyrirtækja fyrirmæli um að þeir skyldu loka inn í aðalrýmið eftir klukkan 19 á kvöldin. Það hafi ekki síst verið fyrir tilstuðlan annarra langþreyttra verslunareigenda í húsinu.

Salernismálin ástæða lokunar

Jón Grétar Jónsson, framkvæmdastjóri Eikar rekstrarfélags sem á og rekur Glæsibæ, segir þessar nýtilkomnu lokanir ekki vera vegna hegðunar ungmennanna. Aðalrýmið hafi fram til þessa verið opið á kvöldin til að viðskiptavinir veitingarstaðarins Tokyo Sushi kæmust á salernið sem þar má finna.

Eftir stækkun staðarins hafi ekki lengur verið talin þörf á því að hafa rýmið opið þar sem búið sé að setja upp salerni inni á staðnum. Rétt er í þessu samhengi að nefna að Tokyo Sushi opnaði aftur eftir stækkun í byrjun marsmánaðar.

Jón segir það ekki nýja sögu, hvorki í þessu húsi né öðrum, að það kunni að vera áreiti af hinu og þessu. Á opnum, opinberum stöðum sé víða verið að kljást við vanda sem þennan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×