Lífið

Dökkir lokkar ráðandi á kolli forsætisráðherra á ný

Jakob Bjarnar skrifar
Sumarleyfið ætlar að reynast Bjarna forsætisráðherra vel og lætur æskuþokkinn aftur á sér kræla.
Sumarleyfið ætlar að reynast Bjarna forsætisráðherra vel og lætur æskuþokkinn aftur á sér kræla.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra nýtur sumarsins sem aldrei fyrr og á Facebooksíðu sem helguð er störfum hans og lífi greinir Bjarni frá því að hann hafi gengið upp að Brúarskörðum og til baka í Úthlíð. Þar bankaði hann uppá hjá Birni bónda Sigurðssyni, og horfðu þeir saman á landsleik Íslands og Frakklands á dögunum.

Fyrir skemmstu vöktu nýlegar myndir af Bjarna mikla athygli, þá fyrir þær sakir að forsætisráðherra var orðinn gráhærður. Reyndar var það fréttastofa RUV sem fyrst fjallaði um þetta athyglisverða fyrirbæri sem voru litabrigði í hári Bjarna; að forsætisráðherrann væri orðinn silfurrefur.

Voru uppi miklar vangaveltur á samfélagsmiðlum um það hvort hann hafi látið lita á sér hárið, eða gleymt að lita hárið, nema Svanhildur Hólm, upplýsingafulltrúi forsætisráðherra sagði ekkert hæft í slíkum sögusögnum. Bjarni hafi farið í klippingu og við það létu svörtu lokkarnir undan hinu grásprengda undirlagi. Flóknara væri það nú ekki. Bjarni hafi ekki látið lita á sér hárið.

Á nýlegri myndinni sem Bjarni birtir af sér í Úthlíð verður ekki betur séð en hinir dökku lokkar hafi náð yfirhöndinni að nýju og hann ekki lengur grár fyrir hærum; reyndar lítur Bjarni vel út og er útitekinn og glæsilegur sem aldrei fyrr. Og ekki að sjá að álagið í stóli forsætisráðherra sé að sliga hann nema síður sé.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×