Enski boltinn

Swansea sagði líka „nei takk“ við nýja tilboðinu í Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er örugglega orðinn langeygður eftir niðurstöðu í sitt mál.
Gylfi Þór Sigurðsson er örugglega orðinn langeygður eftir niðurstöðu í sitt mál. Vísir/Getty
Forráðamenn Swansea City voru ekki lengi að hafna tilboði Everton í íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson.

Sky Sport staðfesti tilboðið frá Everton fyrr í kvöld og Sky hefur nú birt aðra frétt um að Swansea hafi sagt „nei takk“ við nýja tilboðinu í Gylfa. Blaðamaður Sky Sports tekur það fram að það hafi ekki tekið langan tíma fyrir velska félagið að hafna nýjasta tilboðinu í okkar mann.

Everton hafði áður boðið 40 milljónir punda í Gylfa án árangurs en bauð nú að auki fimm milljónir punda í árangurstengdum bónusum.

Swansea stendur fast á sínu að félagið muni ekki selja Gylfa fyrir minna en 50 milljónir punda og skiptir þar engu þótt að Gylfi sé ekki með liðsfélögum sínum í æfingaferðinni í Bandaríkjunum.

Hvort við taki nú pattstaða eins og var í nokkra daga fram að þessu tilboði verður að koma í ljós en á meðan verða bæði Gylfi og væntanlegir liðsfélagar hans af mikilvægum dögum sem þeir annars gætu notað í undirbúning fyrir komandi átök í ensku úrvalsdeildinni.

Svo gæti jafnvel farið að þetta máli dragist allt fram að fyrsta leik og jafnvel allt þar til að félagsskiptaglugganum verður skellt aftur  í lok ágúst.


Tengdar fréttir

Tim Sherwood: Gylfi Sigurðsson er 50 milljón punda virði

Tim Sherwood, fyrrum leikmaður og knattspyrnustjóri Tottenham, fer fögrum orðum um Gylfa Þór Sigurðsson og það kemur honum ekki mikið á óvart að verðmiðinn á íslenska landsliðsmanninum sé kominn upp í 50 milljón pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×