Sport

Gatlin: Það fyrsta sem hann sagði var til hamingju

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gatlin kraup fyrir Bolt eftir hlaup í virðingarskyni.
Gatlin kraup fyrir Bolt eftir hlaup í virðingarskyni. Vísir/Getty
Justin Gatlin vann það magnaða afrek í kvöld að vinna heimsmeistaratitilinn í 100 m hlaupi karla í lokahlaupi Jamaíkumannsins og heimsmethafans Usain Bolt í greininni.

Gatlin, sem hefur tvívegis fallið á lyfjaprófi á ferlinum, er einn allra óvinsælasti íþróttamaður heims og baulað á hann hvar sem hann keppir utan heimalandsins.

„Ég hlusta ekki á baulið,“ sagði hann í viðtali við BBC í kvöld en það má sjá hér fyrir neðan.

„Fólkið sem elskar mig er hér að styðja mig, líka þeir sem eru heima. Samlandar mínír styðja mig og ég hef einbeitt mér að því.“

Hann sagði enn fremur upplifunina hafa verið ótrúlega, ekki síst af því að þetta var í síðasta sinn sem Usain Bolt keppir í 100 m hlaupi.

„Við erum keppinautar inni á hlaupabrautinni og höfum verið undanfarin ár. Það fyrsta sem hann sagði við mig var til hamingju. Þú lagðir mikið á þig fyrir þetta og áttir ekki skilið allt þetta baul.“








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×