Enski boltinn

Guardiola: Ég á eftir að koma með fjölskylduna mína til Íslands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var sáttur með úrslitin og frammistöðuna gegn West Ham í Ofurleiknum á Laugardalsvelli í dag. City var mun sterkari aðilinn í leiknum sem liðið vann 3-0.

„Við fengum á okkur eitt færi undir lokin. Við vorum svo öruggir. Það er ekki auðvelt að brjóta 11 manna varnarmúr á bak aftur en við fundum réttu augnablikin. Enginn meiddist, við héldum hreinu og sköpuðum mörg færi,“ sagði Guardiola í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson eftir leikinn í dag.

Guardiola stillti upp gríðarlega sterku liði í dag og City-menn litu á köflum frábærlega út. Spánverjinn er ánægður með hvernig tekist hefur til að endurnýja City-liðið.

„Ég er svo ánægður með það sem félagið hefur gert. Þetta var gamalt lið með leikmönnum sem höfðu gert frábæra hluti fyrir félagið. En núna erum við með yngra lið og erum þess vegna svo þakklátir félaginu,“ sagði Guardiola sem er meðvitaður um pressuna sem er á honum og liðinu hans fyrir næsta tímabil.

„Það eru 5-6 lið sem vilja vinna ensku úrvalsdeildina. Við viljum spila vel eins og í síðustu leikjum.“

City-menn komu til landsins í gær og dvölin hér verður því ekki löng. En hvernig var upplifunin að spila á Laugardalsvelli?

„Þetta var gott. Ég kem aftur með fjölskylduna mína því ég þekki þetta land ekki. Ég mun eyða tíma hérna,“ sagði Guardiola að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×