Enski boltinn

Guardiola: Óeðlilega miklir peningar en svona er þetta orðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pep Guardiola vonast til að fá góðan leik þegar hans menn í Manchester City mæta West Ham á Laugardalsvelli klukkan 14.00 á morgun.

Hörður Magnússon ræddi við hann fyrir kvöldfréttir Stöðvar 2 en brosmildur og afslappaður Guardiola sagðist vera spenntur fyrir því að fá að spila á Íslandi.

„Við erum fyrst og fremst ánægðir með að vera hérna á Íslandi. Þetta er land sem maður getur ekki heimsótt oft. Þetta er síðasti æfingaleikurinn okkar áður en enska úrvalsdeildin hefst. Vonandi tekst okkur að spila vel og að áhorfendur fái góðan leik.“

City hefur spilað vel á undirbúningstímabilinu og Guardiola er ánægður með stöðu mála.

„Leikmenn hafa lagt mikið á sig og sloppið við meiðsli. Við höfum spilað vel og náðum að leysa þau mál sem við ætluðum okkur að gera. Þess vegna erum við ánægðir.“

Stóru tíðindi dagsins og vikunnar eru félagaskipti Neymar til PSG frá Barcelona á 222 milljónir evra. Neymar verður þá langdýrasti leikmaður heims en Guardiola gerir ekki athugasemdir við að knattspyrnan sé að þróast á þennan hátt.

„Knattspyrnan elur af sér marga aðdáendur og margar beinar útsendingar í sjónvarpi. Það er mikið af peningum í spilinu hjá mörgum félögum og þegar félög hafa efni á því að eyða mikið í leikmenn þá gera þau það.“

„Þetta er vinsæl íþrótt um allan heim og þess vegna er þetta hægt. Þannig er þetta orðið. Ef þú spyrð mig hvort þetta sé eðlilegt þá er svarið nei, enda mikið af peningum. Þetta hefur breyst mikið fyrir alla á undanförnum árum en vinsældir knattspyrnunnar hefur gert þetta mögulegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×