Lífið

Heimsmeistaramótið í jójó í Hörpu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Páll Valdimar keppir fyrir Íslands hönd.
Páll Valdimar keppir fyrir Íslands hönd.
Heimsmeistaramótið í jójó verður haldið á Íslandi daganna 10.-12. ágúst í Hörpu. Tvöhundruð keppendur frá þrjátíu löndum eru skráðir til leiks og má búast við yfir 500 erlendra gesta vegna mótsins.

Um er að ræða fyrsta skiptið sem heimsmeistaramót í hinni margslungnu íþrótt jójó er haldin hérlendis. Mótið fer fram í Silfurbergi í Hörpu.

Keppt er í fjölbreyttum stílum á mótinu þar sem keppendur láta ljós sitt skína og jójóin fljúga en dómarar rýna í listræna tjáningu keppenda, fimi og úthugsaða og taktfasta frammistöðu við tónlist. Aðrar keppnisgreinar eru meðal annars þar sem keppendur láta jójó leika í lausu lofti og notkun tveggja jójóa samtímis.

Neðra rýmið í Hörpu, Flói, verður sérstakt kennslu- og æfingarsvæði fyrir alla þá sem vilja líta inn og prufukeyra jójó í fyrsta sinn eða dusta rykið af gamla jójóputtanum. Þeir sem standa að kennslunni eru keppendur mótsins. Þátttaka er ókeypis og býðst gestum og gangandi að koma og taka þátt.

Páll Valdimar Kolka Guðmundsson keppir fyrir hönd Íslands en hann hefur áður keppt á heimsmeistaramótinu á erlendri grundu auk þess að hafa hlotið silfur í tvígang á evrópumótinu, sigrað opna breska meistaramótið og stórmót í Japan.

Skipulag mótsins hérlendis er í höndum Páls Valdimars Kolka Guðmundssonar, Sigurhans Óskars Sigurhanssonar og Ben McPhee, og er það haldið í samstarfi við Alþjóðlega jójósambandið (IYYF). Stærstu styrkaraðilar mótsins eru YoYoFactory og Mountain Dew. Undirbúningur mótsins hefur tekið tvö ár og er þetta annað skiptið sem mótið er haldið í Evrópu.

Miðar á keppnina fást á Tix.is þar sem hægt er að tryggja sér þriggja daga passa á 5.500 kr. og dagpassa á 3.000 kr.

Nýlega var tilkynnt að opinbert lag mótsins er Throw Down with MK með hljómsveitinni  Future Boyz. Hægt er að hlusta á það hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×