Fornleifafræðingar í Kambódíu hafa fundið stóra stytttu sem talið er að hafi eitt sinn staðið vörð yfir fornum spítala í Angkor-klaustrinu fræga. The Guardian greinir frá.
Styttan er rúmir tveir metrar á hæð en talið er að hún sé frá 12. eða 13. öld. Fornleifafræðingar komu auga á hana á laugardaginn er þeir voru við rannsóknir á svæðinu, að því er segir í yfirlýsingu frá talsmanni stofnunar sem fer með umsjón svæðisins. Þá sagði talsmaðurinn útskurð á höfði og líkama styttuna „enn fallegan“ þrátt fyrir háan aldur hennar.
Angkor-svæðið er vinsælasti ferðamannastaður Kambódíu en þar hefur gríðarlegt landflæmi verið rannsakað og fjöldi fornleifa grafnar upp.
Á svæðinu voru jafnframt höfuðborgir Kmera-veldisins en þegar þeir voru sem voldugastir er talið að um ein milljón manna hafi búið í Angkor. Þannig var borgin ein sú fjölmennasta í veraldarsögunni, fyrir iðnbyltingu.

