Enski boltinn

Leifur: Gylfi var einu sinni boltastrákur á Goodison Park

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leifur Garðarsson, körfuboltadómari, fyrrum þjálfari í Pepsi-deildinni og mikill stuðningsmaður Everton, er mjög ánægður með nýjasta leikmanninn á Goodison Park.

Guðjón Guðmundsson hitti Leif og ræddi við hann um komu íslenska landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar til Everton.

Gylfi var aðeins þrettán ára gamall þegar Everton sýndi honum fyrst áhuga. Hann fór utan til skoðunar hjá félaginu.

„Hann var þá á æfingasvæði yngri liða en hann fór þarna út til reynslu í kringum 2001 eða 2002. Hann var mjög ungur en fór tvívegis. Í annað skiptið fór hann með unglingaliði til Þýskalands í mót,“ sagði Leifur Garðarsson í samtalið við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Hann var meira að segja boltastrákur á Goodison Park þannig að hann hefur komið á Goodison Park eins og hann mun gera í kvöld þegar hann verður kynntur til leiks,“ sagði Leifur

„Ég átti í mjög góðu sambandi við Ray Hall sem var yfirmaður yngri mála hjá Everton. Björn Daníel Sverrisson fór þarna út sem og Ólafur Guðmundsson handknattleikskempa og núverandi landsliðsmaður. Hann var mjög öflugur hafsent,“ sagði Leifur

„Svo er líka Bjarni Viðarsson sem gerði síðan samning við Everton,“ sagði Leifur en hann er einn helsti stuðningsmaður Everton á Íslandi. Hann segir að Gylfi verði lykilmaður hjá félaginu.

„Ronald Koeman knattspyrnustjóri er búinn að reyna að ná í Gylfa áður þegar hann var hjá Southampton. Þeir eru búnir að vera mjög þolinmóðir í þessari vinnu að fá Gylfa til félagsins. Koeman sagði í viðtali í gær að Gylfi væri lykilpúsl í þetta lið og það er því bókað að hann verður byrjunarliðsmaður,“ sagði Leifur.

„Fólkið sér líka karakterinn hjá Gylfa. Hann var ekkert að básúna neitt í öllu þessu dæmi í kringum félagsskiptin. Einhverjir leikmenn eru vaðandi í fjölmiðla með allskonar yfirlýsingar en Gylfi heldur sér til hlés. Hann er kurteis og prúður piltur og beið bara rólegur. Hann er að uppskera núna,“ sagði Leifur en það má sjá allt innslag Gaupa í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Gylfi Þór og saga dýrasta Íslendingsins

Níu forverar Gylfa Þórs Sigurðssonar sem dýrasta knattspyrnumanns Íslands eru langt frá því að ná samanlagt upp í kaupverð Everton á Gylfa. Eiður Smári Guðjohnsen hafði verið sá dýrasti í sautján ár.

Spilar í bláu allan ársins hring

Gylfi Þór Sigurðsson er við það að ganga í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Everton, eftir að félagið komst að samkomulagi við Swansea um kaupverð. Hann fer í læknisskoðun hjá Everton í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×