Viðskipti innlent

Verðbólguálag hækkar skarpt

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Krónan hefur veikst um 4% í ágúst.
Krónan hefur veikst um 4% í ágúst.
Verðbólguálag hefur hækkað skarpt það sem af er ágústmánuði en gengi krónunnar hefur veikst um fjögur prósent frá mánaðamótum. Þannig er verðbólguálag til fjögurra ára nú 2,4 prósent en var aðeins um tvö prósent fyrir nokkrum dögum, að því er fram kemur í nýju skuldabréfayfirliti Capacent.

Sérfræðingar Capacent segja að ekki þurfi fimm háskólagráður í hagfræði til þess að sjá að verðbólgan muni fara vaxandi á næstu mánuðum ef gengi krónunnar styrkist ekki aftur. Bent er á að kaupmenn séu margir hverjir að huga að innkaupum fyrir haustið en gengi krónunnar sé nú um þremur prósentum veikara en það var að meðaltali á fyrstu þremur mánuðum ársins þegar kaupmenn voru að kaupa inn fyrir sumarið.

Þumalputtareglan sé sú að tveir þriðju gengisveikingar krónunnar komi fram í verðlagi á næstu tólf mánuðum. Samkvæmt því ætti verðbólgan að verða um þrjú til fjögur prósent næsta sumar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×