Aron Jóhannsson segir að hann fái ekki fleiri tækifæri hjá Werder Bremen.
Aron gekk til liðs við Bremen frá AZ Alkmaar 2015 en hefur aðeins spilað 15 deildarleiki fyrir Bremen á tveimur árum.
Aron kom ekkert við sögu þegar Bremen vann 3-0 sigur á C-deildarliði Wurzburg um helgina. Hann segir að það sé merki um að hann fái ekki fleiri tækifæri hjá Bremen.
„Það lítur út fyrir að það sé ekki lengur þörf á mér hérna. Það eru mikil vonbrigði fyrir mig,“ sagði Aron í samtali við Deichstube.de.
Frank Baumann, íþróttastjóri Bremen, hefur sagt að félagið sé tilbúið að hlusta á tilboð í hinn 26 ára gamla Aron.
Samkvæmt heimildum Deichstube hafa félög á Grikklandi áhuga á Aroni. Hann vill þó helst halda kyrru fyrir í Þýskalandi.
„Ég myndi vilja vera áfram í Þýskalandi. Ég veit ekki hvað gerist. Ég veit bara að ég þarf að spila og ég fær það ekki lengur hjá Bremen,“ sagði Aron.
Aron: Fæ ekki fleiri tækifæri hjá Werder Bremen
Tengdar fréttir
Aron mögulega á förum frá Werder Bremen
Svo gæti farið að Aron Jóhannsson yfirgæfi herbúðir Werder Bremen til að fá að spila meira.