Enski boltinn

Eiður Smári fer yfir möguleika Chelsea: Áhugavert að sjá hvernig Morata aðlagast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fór yfir möguleika Chelsea í upphitunarþætti fyrir ensku úrvalsdeildina. Chelsea mætir Burnley í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar klukkan 14:00 á morgun.

Chelsea byrjaði síðasta tímabil frekar illa en eftir að Antonio Conte, knattspyrnustjóri liðsins, breytti um leikaðferð í kjölfar 3-0 taps fyrir Arsenal snerist gengi Chelsea við. Liðið vann 13 leiki í röð og endaði á því að verða Englandsmeistari í annað sinn á síðustu þremur árum.

„Þegar þeir spiluðu við Arsenal úti og töpuðu illa gat enginn séð fyrir sér að Chelsea færi þetta skrið sem þeir fóru á. Kannski var þetta blessun í dulargervi,“ sagði Eiður Smári sem lék með Chelsea á árunum 2000-06.

Álvaro Morata á að leiða sóknarlínu Chelsea í vetur.vísir/getty
Nokkrar breytingar hafa orðið á liði Chelsea í sumar. John Terry fór til Aston Villa, Nemanja Matic til Manchester United og allt bendir til þess að Diego Costa sé á förum frá Chelsea. Í staðinn keyptu Englandsmeistararnir Antonio Rüdiger, Tiémoué Bakayoko og Álvaro Morata.

„Hlutverk stjórans er að finna hvaða leikmenn eru hungraðir í meira. Þeir verða að vera ánægðir með leikmennina sem þeir eru með og þá sem hafa bæst í hópinn,“ sagði Eiður sem er spenntur að sjá hvernig Morata spjarar sig hjá Chelsea.

„Það verður áhugavert að sjá hvernig hann aðlagast ensku úrvalsdeildinni. Hann er góður leikmaður en enska úrvalsdeildin er öðruvísi. Því hraðar sem hann aðlagast, þeim mun betra fyrir alla.“

Eiður segir að það verði erfitt að fylla skarð Diegos Costa ef hann fer frá Chelsea.

„Það yrði mikið áfall fyrir Chelsea að missa hann. Þeir hafa þegar misst [Eden] Hazard í meiðsli og ef Costa fer eru þeir búnir að missa aðalmennina frá síðasta tímabili,“ sagði Eiður.

Innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×