Lífið

Myndasöguhetjan Bruce á bol

Vera Einarsdóttir skrifar
Jonathan Duffy og Einar Valur Másson í nýju bolunum en myndskreytingin byggir á Bruce the Angry Bear, fyrstu hinsegin teiknimyndasögunni sem íslenskur fjölmiðill birtir. Bolirnir verða til sölu í kringum Hinsegin daga.
Jonathan Duffy og Einar Valur Másson í nýju bolunum en myndskreytingin byggir á Bruce the Angry Bear, fyrstu hinsegin teiknimyndasögunni sem íslenskur fjölmiðill birtir. Bolirnir verða til sölu í kringum Hinsegin daga. MYND/LAUFEY ELÍASDÓTTIR
Bolir með teiknimyndahetjunni Bruce the Angry Bear komu á markað í vikunni en myndskreytingin á þeim byggir á samnefndri teiknimyndasögu sem birtist vikulega á vefsíðunni GayIceland.

Teiknimyndasagan Bruce the Angry Bear fór fyrst í loftið á vefsíðunni GayIceland.is í lok síðasta árs og hefur þegar tryggt sér dyggan aðdáendahóp. Sagan er eftir þá Jonathan Duffy og Einar V. Másson og fjallar um Bruce sem er viðskotaill bangsatýpa og kærastann hans, Spencer, sem er öllu viðkvæmnislegri og hófstilltari. Þeir reka veitngastað í Geykjavík, sem er eins konar hliðarveruleiki Reykjavíkur, og lenda þar í ýmsum skrautlegum ævintýrum. 

Bruce the Angry Bear og kærasti hans, Spencer, eru í aðalhlutverkum í teiknimyndasögunni, sem er full af háðsglósum og svörtum húmor.
Jonathan, sem er kvikmyndagerðarmaður og uppistandari, hafði lengi gengið með hugmyndina að Bruce í maganum en hann tók ekki á sig endanlega mynd fyrr en hann kynntist teiknaranum Einari Mássyni.

Hann segir hugmyndina hafa kviknað þegar hann var að kynna heimildarmyndina sína The Doctors Wife árið 2011. Hún var sýnd á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum samkynhneigðra og oftar en ekki var henni stillt upp á undan myndinni Bear City. „Ég var bæði með lengri og styttri útgáfu af myndinni og það kom ósjaldan fyrir að styttri útgáfan var auglýst en sú lengri sýnd, sem þýddi að dagskráin riðlaðist. Við það töfðust sýningarnar á Bear City sem leiddi til þess að ég varð nokkrum sinnum var við mjög reiðar bangsatýpur sem biðu óþreyjufullar fyrir utan kvikmyndahúsið eftir sinni mynd og hefðu örugglega viljað henda „twink-i“ eða unghomma eins og mér út í buskann. Þá hugsaði ég með mér að það gæti nú verið fyndið að skapa söguhetju byggða á bangsatýpu sem gengur um með bastkörfu og kastar unghommum í mann og annan og hef notað hana í uppistöndum síðan,“ útskýrir Jonathan.

Hann flutti til Íslands fyrir tveimur árum og vinnur mikið með Hugleiki Dagssyni. „Ég viðraði hugmyndina að Bruce við Hugleik og hann hvatti mig eindregið til að finna teiknara. Þegar ég var að halda fyrirlestur á TEDx Reykjavík í fyrra varð Einar á vegi mínum. Hann var að teikna skopmyndir af fyrirlesurunum og mér leist strax vel á það sem hann var að gera. Ég bað hann um að setjast með mér niður í kaffi og þar sem ég sat og sagði honum frá Bruce teiknaði hann tillögu og spurði: Er þetta hann? Hann hitti naglann beint á höfuðið og á þessum fyrsta fundi varð karakterinn til.“

Þeir Jonathan og Einar gerðu nokkrar teiknimyndaræmur og kynntu fyrir ritstjóra GayIceland sem tók vel í að birta þær á síðunni. Þær fóru í loftið í lok desember 2016 og birtist ný ræma á hverjum fimmtudegi. Þær birtast sömuleiðis í einu vinsælasta hinsegin ferðatímariti í Danmörku, Out & about, en ritstjórn þess féll fyrir sögunni og fékk sérstakt leyfi höfundanna og GayIceland fyrir birtingunni.

Sagan á að sögn þeirra Einars og Jonathans þegar dygga aðdáendur og hafa þeir verið spurðir hvort ekki sé von á bók og öðru tilheyrandi. „Sögum og kvikmyndum fylgja oft hinir ýmsu munir enda vilja aðdáendur gjarnan safna einhverju áþreifanlegu. Þess vegna kom upp sú hugmynd að framleiða bol, sem er eitthvað sem við vissum að bæði aðdáendur Bruce og myndasagna almennt kynnu að meta,“ segir Jonathan en bolinn prýðir dæmigerð mynd af Bruce með áletruninni „I don‘t have feelings I eat them.“ „Hún lýsir Bruce mjög vel. Honum er nákvæmlega sama um álit annarra og þó hann sé oft hryssingslegur er það eitthvað sem við flest hefðum gott af að tileinka okkur í meiri mæli.“

Aðspurður segir Jonathan að sig langi til að gera ýmislegt fleira með karakterinn. „Draumurinn er að gera teiknimynd en hann er enn þá fjarlægur.“

Bruce-bolirnir verða til sölu í Kaupfélagi Hinsegin daga, í húsnæði Samtakanna '78 að Suðurgötu 3, dagana 8. til 13. ágúst. Hluti ágóðans rennur í Pride-sjóðinn.

Þeir Bruce og Spencer reka veitingastað í Gaykjavík sem er eins konar hinsegin hliðarveruleiki Reykjavíkur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×