Lífið

Sviðslistakona skoðar hvort hægt sé að gera plan og frumsýnir nýtt myndband

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hrefna Lind sendir í dag frá sér glænýtt lag og myndband sem fjallar um kaffi, enda er kaffi gott.
Hrefna Lind sendir í dag frá sér glænýtt lag og myndband sem fjallar um kaffi, enda er kaffi gott. Vísir/Andri Marinó
Já, ég var að byrja með síðu á Karolina fund þar sem ég er að safna peningum svo ég geti borgað fyrrverandi manninn minn út. Þetta er upplifunarverk sem gengur næstu 40 daga þar sem ég skoða hvort það sé hægt að gera plan og fóta sig í leiðinni á húsnæðismarkaði,“ segir listakonan Hrefna Lind Lárusdóttir sem var á dögunum að hrinda af stað söfnuninni/upplifunarverkinu My House.

„Ég er í framhaldsnámi í sviðslistum og er að nota það sem ég geri, mína krafta, til að sjá hvort það sé hægt að fóta sig á húsnæðismarkaðinum með þá eina að vopni. Ég er að reyna að safna einni komma átta milljónum til að standa straum af þeim viðburðum sem ég er að bjóða upp á og til að standa straum af kostnaði íbúðarinnar.“

Hrefna býður upp á ýmiss konar viðburði í skiptum fyrir stuðning við verkefnið, meðal annars býður hún upp á gistingu, kaffispjall og EP plötu sem hún stefnir á að gefa út á vínyl. Einnig býður hún fólki að horfa á tvo Netflix þætti með sér og leigjandanum hennar, honum Stefáni, ásamt því að þeir sem vilja geta leyft börnunum sínum að hoppa á trampólíninu í garðinum hennar. Svo er það eitthvað sem Hrefna kallar tequila hugleiðslu.

„Ég er sem sagt lærður jógakennari og er búin að vera að þróa síðan ég kom heim frá Indlandi það sem ég kalla leikhúsjóga – þar koma vinahópar í heimsókn eða ég fer til þeirra og leiði þau í gegnum hugleiðslu. Ég fer í karakter sem er jógakennari. Þetta er svolítið eins og djamm í núvitund – ég er með míkrófón og tónlist, þau fara í gegnum öndunaræfingar og núvitundaræfingar – svo erum við með tequila, salt og lime. Þetta er svolítið geggjuð og flott hugleiðsla sem kemur fólki í gírinn og gerir það „zen-að“ í leiðinni. Ég er byrjuð að fá pantanir á hana fyrir utan þessa söfnun – að koma í afmæli og þess háttar.“

Í dag gefur Hrefna svo út lag og myndband til að keyra söfnunina í gang. Lagið nefnist Coffee makes the conversation – eða kaffið gerir samtalið – og fjallar, eins og titillinn bendir til, um samræður yfir kaffibolla.

„Söfnunin er ekki að fara hratt af stað, það eru bara komin tvö prósent – þannig að ég ákvað að gefa út lag. Þetta lag verður hluti af EP plötunni og ef þetta næst þá verður það 10 tommu vínylplata. Þetta er óðurinn til kaffisins og kaffispjalls. Ég er svolítið að tala um hvað ég elska kaffi og hvað það er gaman að hitta fólk í kaffispjalli – ég er svolítið að vekja athygli á því hversu gefandi kaffispjall er. Kaffi er gott.“

Þótt söfnunin fari hægt af stað er hún ennþá bjartsýn og vonar að fólk taki þátt og verði með í skemmtilegheitunum. Hægt er að taka þátt á Karolina Fund síðunni og kaupa sér m.a. kaffistund.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×