Líklega verða um þrjú þúsund Íslendingar í Finnlandi á laugardaginn þegar sannkallaður tvíhöfði fer fram hjá karlalandsliðum Íslands í körfubolta og fótbolta. Strákarnir í körfuboltalandsliðinu mæta Pólverjum í Helsinki Arena klukkan 11:45 (13:45 að staðartíma) og fótboltastrákarnir mæta Finnum í Tampere klukkan 16 (18 að staðartíma).
Um 1200 Íslendingar hafa keypt miða á leikina fimm sem körfuboltalandsliðið spilar í Helsinki. Þá er von á góðri viðbót á leikinn gegn Pólverjum í ljósi þess fjölda sem flýgur utan í það sem verður vonandi eftirminnileg helgarferð.
Knattspyrnusamband Íslands hefur selt tæplega 3000 miða á leikinn gegn Finnum í Tampere að því er fram kom á Mbl.is í morgun.
Á föstudagskvöldinu verður mikið Íslendingapartý á The Circus í Helsinki. Skemmtistaðurinn er opinber skemmtistaður Íslendinga og Finna á Evrópumótinu að sögn Kristins Geirs Pálssonar, starfsmanns KKÍ. Rappdúettinn Úlfur Úlfur kemur fram á föstudagskvöldinu og sömuleiðis Helgi Björns ásamt félögum sínum í SSSól.
