Innlent

Nágranni óttast kínverskan áhuga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Snæbjörn Sigurðsson, ábúandi í Efstadal, er alfarið á móti því að útlendingar, Kínverjar jafnt sem aðrir, fái að kaupa jörðina Neðri-Dal í Biskupstungum.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Kínverjar hefðu augastað á jörðinni og væru reiðubúnir að greiða 1.2 milljarða fyrir kaupin. Jörð Neðri-dals er 1.200 hektarar að stærð og er sú næsta við Geysissvæðið í Haukadal.

Snæbjörn sagði það sorglegt í samtali við Bítið í morgun hvernig umræðan um kaup kínverskra auðmanna virðist vera að skjóta upp kollinum aftur - og það að hún skuli vera koma fólki á óvart.

Þó svo að hann sé almennt á móti kaupum útlendinga á íslenskum jörðum segir hann stöðuna sérstaklega varhugaverða þegar Kínverjar eiga í hlut. „Við þurfum nú ekki annað en að átta okkur á því hveru stórt samfélagið er þarna úti,“ segir Snæbjörn og nefnir í því samhengi að Kínverjar séu nú rúmlega einn og hálfur milljarður talsins.

Sjá einnig: Kínverjar hafa áhuga á Neðri-Dal



Upphæðirnar sem þeir geti boðið, í krafti tengsla sinna við þarlend stjórnvöld, séu stjarnfræðilegar og því mjög erfitt fyrir „venjulegt fólk“ að keppa við tilboð frá kínverskum auðmönnum.

Þó svo að Snæbjörn óttist ekkert sérstaklega hvað nýir eigendur kunna að gera við jörðina segir hann landsvæði og vatnsupptaka sé sífellt að verða verðmætari. Á jörð Neðri-dals má til að mynda finna nokkurt magn af nýtanlegu heitu vatni sem og kaldavatnslind og á með silungi og laxi. Því vilji hann ekki gera komandi kynslóðir að leiguliðum Kínverja hér á landi.

Hann vill grípa til aðgerða. „Við verðum að fara að verja það að Íslendingar geti unnið á landinu sínu,“ segir Snæbjörn. „Ef við viljum endurnýja ábúð á jörðum þarna þá verðum við að gera eitthvað.“

Spjall hans við Bítið má heyra hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×