Enski boltinn

Gylfi: Verðmiðinn var sturlaður

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er dýrasti leikmaður í sögu Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er dýrasti leikmaður í sögu Everton. Mynd/Heimasíða Everton
Gylfi Þór Sigurðsson sagði í viðtali við Daily Mail að honum þætti verðmiðinn á sér sturlaður, en vonaði að hann væri byrjaður að borga það til baka eftir hið víðfræga undramark hans gegn Hajduk Split.

Sjá einnig: Sjáðu undramark Gylfa Þórs

„Félagsskiptamarkaðurinn er sturlaður,“ sagði Gylfi. „Ég get samt ekkert ráðið því. Mitt verkefni er að spila vel og reyna að skora mörk. Svo lengi sem ég held áfram að gera það þá vonandi geri ég alla glaða.“

Gylfi Þór kostaði Everton 40 milljónir punda, eða tæpan 5 og hálfan milljarð íslenskra króna, með möguleika á allt að 5 milljónum punda í frammistöðutengdum viðbótargreiðslum. 

Gylfi var í fyrsta skipti í byrjunarliði Everton á fimmtudagskvöld í leiknum gegn Hajduk eftir að hafa komið inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik fyrir félagið gegn Manchester City á mánudaginn.

„Það var frábært að ná að klára 90 mínútur. Ég hef ekki spilað mikið á undirbúningstímabilinu og að ná 90 mínútum var ákveðið áfall á líkamann. Það er þreyta í vöðvunum núna en þetta mun gera mér gott,“ sagði Gylfi.

Everton á stórleik á morgun þegar liðið fer á Stamford Bridge í Lundúnum og mætir Englandsmeisturum Chelsea

„Við erum enn taplausir, en það eru erfiðir leikir fram undan eftir landsleikjahléið,“ sagði Gylfi. „Næstu þrír leikir eru mjög mikilvægir og vonandi verðum við áfram taplausir.“

Leikur Chelsea og Everton verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í hádeginu á morgun. 


Tengdar fréttir

Gylfi maður leiksins hjá BBC og Liverpool Echo

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Everton þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Hajduk Split í seinni leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×