Enski boltinn

Conte: Koeman búinn að setja saman mjög sterkt lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, hrósaði starfi hollenska knattspyrnustjórans Ronald Koeman á félagsskiptamarkaðnum í sumar en Everton hefur bætt við sig íslenskum landsliðsmanni og fleiri öflugum leikmönnum.

Everton heimsækir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn þar sem Gylfi Þór Sigurðsson mun væntanlega byrja sinn fyrsta leik fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Stærstu kaup Koeman í sumar voru kaupin á Gylfa Þór Sigurðssyni en Everton hefur aldrei borgað meira fyrir einn leikmann. Gylfi stimplaði sig inn með frábæru marki á móti Hajduk Split í Króatíu í gær.

Auk þess að kaupa Gylfa fyrir rúmar 40 milljónir punda þá borgaði Everton 25 milljónir fyrir Jordan Pickford, markvörð Sunderland og Michael Keane, miðvörð Burnley. Félagið keypti einnig Davy Klaassen frá Ajax fyrir 23,5 milljónir punda, Sandro Ramírez frá Malaga fyrir 5,2 milljónir punda og Henry Onyekuru frá Eupen fyrir 6,8 milljónir punda.

„Ronald Koeman er búinn að setja saman mjög sterkt lið. Everton hefur bætt sig mikið á þessu tímabili og við þurfum að mæta með fulla einbeitingu á sunnudaginn,“ sagði Antonio Conte á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það er mikilvægt að byggja ofan á góðan sigur á Tottenham og halda áfram á sömu braut,“ sagði Conte.

Leikur Chelsea og Everton fer fram á Stamford Bridge í London og hefst klukkan 12.30 á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×