Innlent

Ekki ökuhæfur vegna veikinda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ökumaðurinn var stöðvaður eftir að hafa valdið tjóni við Sólheima í Reykjavík.
Ökumaðurinn var stöðvaður eftir að hafa valdið tjóni við Sólheima í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að bregðast við fjöldamörgum umferðartengdum ábendingum í gærkvöldi.

Í dagbók lögreglu segir að hið minnsta þrír hafi verið stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna. Þar af höfðu tveir aldrei öðlast ökuréttindi. Þá var einn ökumaður stöðvaður eftir að hafa valdið tjóni við Sólheima. Var hann færður á lögreglustöð þar sem læknir kom og mat ökumanninn ekki hæfan til að stjórna ökutæki - „þó ekki vegna neyslu heldur vegna veikinda,“ eins og það er orðað í dagbókarfærslunni.

Þá fékk lögregla ábendingu um slys við gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar, eins og Vísir greindi frá í gærkvöldi. Þar hafði strætisvagn ekið á hjólreiðamann sem fluttur var á slysadeild til aðhlynningar. Ekki er vitað um meiðsl mannsins að svo stöddu. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var um alvarlegt slys að ræða.

Lögreglan í Mosfellsbæ þurfti að aðstoða ökumann sem velt hafði bifreið sinni á Þingvallavegi við Leirvogsvatn á níunda tímanum í gærkvöld. Ökumaðurinn er talinn hafa misst stjórn á bifreiðinni og var hann fluttur á slysadeild. Hann reyndist óbrotinn en eitthvað marinn. Bifreiðin hefur verið flutt af vettvangi.

Þá hrapaði maður í svifvæng til jarðar við Hafrafell og var hann mjög verkjaður þegar lögregla kom á vettvang. Hann var með hjálm en hafði lent á öxlinni og er talið að hann hafi brotið á sér handlegginn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×