Viðskipti innlent

Icelandair byrjar að fljúga til Cleveland á næsta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Cleveland stendur við Erievatn.
Cleveland stendur við Erievatn. Vísir/Getty
Icelandair mun hefja heilsársflug til bandarísku borgarinnar Cleveland í Ohio á næsta ári.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að borgin sé nítjándi áfangastaður flugfélagsins í Norður-Ameríku. Byrjað verður að fljúga í maí 2018 og verður flogið fjórum sinnum í viku. Sala farseðla hefst í næsta mánuði.

Haft er eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að Cleveland sé áfangastaður sem falli vel að leiðakerfi Icelandair og þétti og styrki tengiflugið til og frá Evrópu.

Í tilkynningunni kemur fram að Cleveland í Ohio standi við Erievatn og sé þekkt iðnaðarborg með um 2,2 milljónir íbúa. „Borgin er einnig kunn fyrir kraftmikið lista- og íþróttalíf, en þar er meðal annars hið þekkta safn Rock and Roll Hall of Fame Museum. Körfuboltalið borgarinnar, Cavaliers, þekkja flestir áhugamenn um körfuknattleik, en með því leikur ein skærasta stjarna NBA, Lebron James.“

Icelandair flýgur í dag til átján áfangastaða í Bandaríkjunum og Kanada og 29 borga Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×