Innlent

Þjóðhátíðarstemming á Laugarvatni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra kom færandi hendi á Laugarvatn í dag þegar hann mætti á staðinn til að gefa íbúum staðarins öll íþróttamannvirki ríkisins á Laugarvatni. Íbúarnir eru svo ánægðir með gjöfina að þeir ætla sér að reisa minnisvarða eða að minnsta kosti skógarlundi til heiðurs ráðherranum.

Nemendur Menntaskólans, grunnskólans og leikskólans komu í skrúðgöngu að íþróttahúsinu þar sem athöfnin fór fram. Mikil óvissa hefur ríkt um íþróttamannvirkin á Laugarvatni eftir að ríkið ákvað að hætta með íþróttakennaraháskólann á Laugarvatni. Nú er málið leyst.

Bláskógabyggð fær þannig íþróttahús, sundlaug, íþróttavöll og íþróttamiðstöð. Þá skipta sveitarfélagið og ríkið á landareignum.

Eftir að skrifað hafði verið undir samninginn bað fjármálaráðherra heimamenn að hrópa fjórfalt húrra fyrir deginum. Benedikt var gerður að hálfgerðri þjóðarhetju á Laugarvatni í dag.

„Þetta er dæmi um það þar sem jafnsælt er að gefa og þiggja. Ég er ósköp glaður yfir því hvað ég fæ hlýlegar viðtökur hér. Mér finnst gaman að sjá krakkana, hvað þau eru lífleg og allt fólk á öllum aldri,“ sagði Benedikt.

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, sagði það spurningu hvort ekki væri réttast að reisa ráðherranum lund á Laugarvatni. Fyrir megi finna þar Jónasarlund og Bjarnalund.

„Ætli Benediktslundur verði ekki næst bara,“ sagði Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×