Fótbolti

City ekki í rannsókn hjá UEFA

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Etihad völlurinn í Manchesterv
Etihad völlurinn í Manchesterv Vísir/getty
Manchester City er ekki undir skoðun hjá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, vegna brota á reglum um sanngjarna peninganotkun (e. Financial Fair Play, FFP). Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sambandinu eftir að forseti spænsku úrvalsdeildarinnar La Liga fór fram á að eyðsla enska félagsins yrði skoðuð.

„Það er engin rannsókn á málum Manchester City varðandi FFP reglur. Allar fréttir þess efnis eiga engar stoðir,“ sagði í yfirlýsingunni.

Franska úrvalsdeildarliðið PSG er hins vegar undir smásjá sambandsins vegna slíkra brota. Javier Tebas, forseti La Liga, sagði að „fjármunir PSG og City taka alla samkeppni innan Evrópu úr skorðum. Þeir blási upp markaðinn og það skaðar fótboltann.“ Bæði félög eyddu hundruðum milljóna punda í leikmannakaup í sumar.

La Liga gaf út yfirlýsingu í dag þar sem forráðamenn deildarinnar segjast hafa sent UEFA formleg bréf þann 22. ágúst þar sem deildin lýsir yfir áhyggjum vegna eyðslu félagana tveggja. Í bréfunum segir að „bæði PSG og Manchester City græða á styrkjum sem ganga ekki upp fjárhagslega og eru ekki sanngjarnir.“

PSG hefur verið rekið af ríkisstjórn Qatar eftir að íþróttafjárfestingasjóður Qatar keypti félagið árið 2011. Í sumar gerði félagið Neymar að dýrasta leikmanni sögunnar þegar hann var keyptur frá Barcelona á 200 milljónir punda. Metið hafði áður verið 89 milljónir punda, og var Neymar því meira en tvöfalt dýrari heldur en áður hafði þekkst.

Franska félagið bætti svo við Kylian Mbappe á lánssamningi frá Mónakó, en þess er vænt að gengið verði frá kaupum á honum næsta sumar fyrir 165 milljónir punda. Talið er að Mbappe hafi komið á lánssamningi, í stað þess að vera keyptur til félagsins, til þess að komast hjá reglunum um sanngjarna peninganotkun.

Manchester City eyddi meira en PSG í sumar, eða samtals 215 milljónum punda. Félagið keypti bakvörðinn Kyle Walker á 45 milljónir punda, miðjumanninn Bernardo Silva á 43 milljónir, markvörðinn Ederson Moraes á 35 milljónir og varnarmanninn Benjamin mendy á 52 milljónir punda.

Félagið seldi hins vegar leikmenn fyrir samtals 85 milljónir punda, þar á meðal Wilfried Bony og Aaron Mooy. Enska liðið er í eigu Abu Dhabi United Group, og hefur í eigu hópsins orðið eitt af ríkari félögum heims.

Spænska stórveldið Barcelona eyddi í samanburði 173 milljónum punda í sumar, eða 42 milljónum punda minna en Manchester City.


Tengdar fréttir

Mbappé lánaður til PSG

Paris Saint-Germain hefur fengið franska ungstirnið Kylian Mbappé á láni frá Monaco.

Rannsókn á Aguero lögð niður eftir mistök

Sergio Aguero, framherji Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, var ásakaður um að hafa ýtt við öryggisverði í fagnaðarlátum leikmanna og stuðningsmanna City í 2-1 sigri á Bournemouth fyrr í dag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×