Innlent

Tínir um fimmtíu lítra af krækiberjum á hverju hausti

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
„Það er nauðsynlegt að hafa vindinn með sér og biðja hann að blása í berin,“ segir Arnheiður Jónsdóttir berjatínslukona sem tínir um fimmtíu lítra af krækiberjum við Ingólfsfjall á hverju hausti. Þá segir hún mikilvægt að þakka berjatínslulandinu fyrir þegar búið er að tína berin svo það verði ber aftur á staðnum að ári.

Arnheiður Jónsdóttir fer nær daglega undir Ingólfsfjall og fyllir þar hverja fötuna af annarri af krækiberjum.

„Það gengur bara vel. Það er orðin góð berjaspretta núna, þó hún hafi kannski einhvern tímann verið betri. Ég veit reyndar ekki hvort ég geti safnað jafn mörgum berjum og í fyrra, þá bjó ég til fimmtíu lítra af krækiberjasaft. Frystikistan var hálf af berjasaft.“

Arnheiður segir að ber séu mjög holl. „Mér er sagt það. Það er nú aðallega maðurinn minn sem drekkur berjasaftið og hann fær eiginlega aldrei kvef og er mjög sprækur miðað við aldur og fyrri störf,“ segir hún. 

Arnheiður er alltaf með ákveðna serimóníu þegar hún fer í berjamó. „Fyrst þegar maður kemur í berjamó þá biður maður vini sína hérna undir fjallinu að vísa sér á berjamó og það bregst ekki að þeir gera það.“

Segir Arnheiður að nauðsynlegt sé að hafa vindinn með sér í liði. „Síðan kemur náttúrulega fullt af rusli í berin. Það eru krummaber frá því í fyrra, lyng og alls konar og þá þarf maður að hafa vindinn í liði með sér. Biðja hann að blása í berin. Þá segi ég: vindur, vindur, vinur minn, blástu nú í berin mín. Hann bregst við. Svo þarf maður að muna eftir því að þakka fyrir sig þegar maður fer úr berjamónum. Það er sko mikilvægt svo maður finni einhver ber næst,“ bætir berjatínslukonan við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×