Enski boltinn

De Gea vill jólafrí í ensku deildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Spánverjinn de Gea er talinn einn af betri markvörðum heims.
Spánverjinn de Gea er talinn einn af betri markvörðum heims. Vísir/Getty
Manchester United hefur leik í Meistaradeild Evrópu í kvöld eftir tæpa tveggja ára fjarveru þegar liðið tekur á móti Basel á Old Trafford.

David de Gea, markvörður United, sagði á blaðamannafundi fyrir leik kvöldsins að enska úrvalsdeildin ætti að gera hlé yfir veturinn til þess að ensku liðin ættu meiri möguleika í Meistaradeildinni.

„Það eru mjög sterk lið á Englandi, og mjög sterk lið á Spáni. En það er satt að á Englandi er aldrei gert hlé á deildinni, desember og janúar eru erfiðir fyrir ensk lið og við spilum marga leiki. Það er erfitt að vera tilbúinn í leikina í Meistaradeildinni.“

„Spænsku liðin eru góð núna, en liðin á Englandi, sérstaklega Manchester United, eru með bestu liðum heims,“ sagði David de Gea.

Miðvikudaginn 20. desember er síðasta umferð ársins spiluð í spænsku úrvalsdeildinni, La Liga, að undanskildum færðum leik Real Madrid og Barcelona sem fram fer á Þorláksmessu. Næsta umferð deildarinnar er svo spiluð 7. janúar, og því líða 18 dagar á milli leikja yfir jól og áramót.

Á sama tíma eru spilaðar fjórar umferðir í ensku úrvalsdeildinni. Heil umferð á Þorláksmessu, annan í jólum, 30. desember og Nýársdag.

Leikur Manchester United og Basel verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst upphitun klukkan 18:15.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×