Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hyggur á að stjórna landinu í fjögur ár til viðbótar eftir að niðurstöður þingkosninganna lágu fyrir í gærkvöldi. „Ég tel að þjóðin telji ríkisstjórnarflokkana örugga valkostinn í norskum stjórnmálum,“ sagði Solberg í gær.
Stjórnarmyndun gæti þó reynst þrautin þyngri, en þegar búið er að telja langflest atkvæðin hafa stjórnarflokkarnir – Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn – og tveir stuðningsflokkar þeirra – Kristilegi þjóðarflokkurinn og Venstre – fengið 89 þingsæti af þeim 169 sem í boði eru. Allir fjórir flokkarnir missa þó fylgi miðað við kosningarnar 2013.
Hægriflokkurinn og Framfaraflokkarnir verða áfram háðir stuðningi annarra flokka til að verja stjórnina frá vantrausti. Vandamálið er að leiðtogar stuðningsflokkanna tveggja hafa sagt að þeir vilji ekki starfa áfram líkt og verið hefur, þar sem óánægja ríki með Framfaraflokkinn.
Þannig hefur Knut Arild Hareide, leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins, sagt að hann myndi kjósa mið-hægristjórn og Trine Skei Grande, leiðtogi Venstre, segist vilja blágræna stjórn.
Leita góðra lausna
Siv Jensen, fjármálaráðherra og formaður Framfaraflokksins, segir að flokkarnir fjórir muni nú setjast niður og leita góðra lausna. „Við höfum sýnt kjósendum að við getum stýrt á farsælan máta.“
Solberg gerir lítið úr þeim vandamálum sem kunna að koma upp við stjórnarmyndun og segir að mikilvægasta verkefninu – að sigra kosningarnar – sé nú lokið. Segir hún að ekki liggi á og segist hún sannfærð um að það muni takast að ná samkomulagi um samstarf.
Rúmlega 40 prósent konur
Verkamannaflokkurinn, undir stjórn Jonas Gahr Støre, beið ósigur í kosningunum og hlaut 3,4 prósent minna fylgi en í síðustu kosningum.
Hlutfall kvenna sem náði kjöri á Stórþingið í gær er nú í fyrsta sinn yfir 40 prósent. Alls náðu sjötíu konur sæti á þingi.
Kosningaþátttakan var 77,6 prósent, 0,6 prósent minna en 2013.