Erlent

22 tróðust undir í Mumbai

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá göngubrúnni í Mumbai.
Frá göngubrúnni í Mumbai. Vísir/AFP
Minnst 22 eru látnir og 27 slasaðir eftir að hafa troðist undir í mannþröng í Mumbai í Indlandi. Atvikið átti sér stað á göngubrú við lestarstöð og varð slysið á háannatíma þegar fjölmargir voru á göngubrúnni.

Tvennum sögum fer af því hvað olli troðningnum, en samkvæmt AP fréttaveitunni segir lögreglan að steypustykki hafi hrunið úr þaki lestarstöðvarinnar svo fólk óttaðist að þakið væri að hrynja. Í frétt BBC segir hins vegar að farþegi hafi hrasað og dottið og það hafi ollið troðningnum.

Lögreglan hefur biðlað til íbúa Mumbai að fara og gefa blóð.

Sömuleiðis eru tveir látnir í borginni Banglaore í Indlandi þar sem fjöldi manna kepptist um að fá matarmiða frá manni í borginni sem var að gefa þá. Hann hefur verið handtekinn af lögreglu.

Troðningar sem þessir eru tiltölulega algengir í hinu þéttbýla Indlandi. Margar borgir eru ekki undir það búnar að mikill fjöldi fólks komi saman á stuttum tíma. Í október 2013 dóu til dæmis rúmlega 110 manns í Madhya Pradesh-héraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×