Erlent

Fullyrðir að konur undir stýri minnki líkur á umferðarslysum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sádi-Arabía er eina landið í heiminum þar sem konum er bannað að keyra bíl og notast þær því margar við einkabílstjóra til að komast ferða sinna.
Sádi-Arabía er eina landið í heiminum þar sem konum er bannað að keyra bíl og notast þær því margar við einkabílstjóra til að komast ferða sinna. Vísir/AFP
Innanríkisráðherra Sádi-Arabíu segir að umferðarslysum muni fækka í kjölfar nýlegrar tilskipunar konungsins um að leyfa konum í Sádi-Arabíu að fá ökuskírteini.

Á þriðjudag gaf Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur Sádí-Arabíu, út tilskipun þess efnis að konur þar í landi geti sótt um ökuréttindi í júní á næsta ári. Sádi-Arabía er eina landið í heiminum þar sem konum er bannað að keyra bíl.

Innanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Abdulaziz bin Saud bin Nayef tjáði sig um afnámið á banninu á Twitter-síðu sinni í dag. Þar sagði hann, án þess að vísa til nokkurra heimilda, að „konur undir stýri myndu umbreyta umferðaröryggi“ og draga úr hættu á umferðarslysum.

Þá sagði innanríkisráðherrann að lögregla í landinu væri reiðubúin að beita umferðarlögum á bæði karla og konur.

Um tíu milljónir fullorðinna kvenna búa í Sádi-Arabíu og því má gera ráð fyrir einhverri fjölgun bifreiða á götum landsins, notfæri konur sér afnámið á ökuleyfisbanninu. Í frétt BBC um málið segir að rannsóknir hafi sýnt fram á að við fjölgun farartækja aukist tíðni banaslysa í umferðinni en tilkynnt er um u.þ.b. 20 slík í Sádi-Arabíu á degi hverjum.


Tengdar fréttir

Konur fagna afléttingu akstursbanns

Gleði ríkti á meðal sádiarabískra kvenna í gær eftir að konungur leyfði þeim að keyra. Sádi-Arabía er síðasta ríkið til að heimila konum að aka bifreið. Baráttan fyrir akstursréttindum hefur verið löng.

Konur í Sádi-Arabíu fá loks að keyra bíl

Sádí-Arabía er eina landið í heiminum þar sem konum er bannað að keyra bíl og hafa ýmis mannréttindasamtök mótmælt banninu í gegnum tíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×