Lífið

Íslenskur landsliðsmaður tekinn ölvaður undir stýri

Benedikt Bóas skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson var tekinn fyrir ölvunarakstur í júlí síðastliðnum og var tekin blóðprufa úr honum. Sú prufa sýndi alvöru málsins en vínandamagn í blóði handboltakempunnar mældist 1,5 prómill.
Stefán Rafn Sigurmannsson var tekinn fyrir ölvunarakstur í júlí síðastliðnum og var tekin blóðprufa úr honum. Sú prufa sýndi alvöru málsins en vínandamagn í blóði handboltakempunnar mældist 1,5 prómill. vísir/getty
Stefán Rafn Sigurmannsson, atvinnumaður í handbolta og landsliðsmaður, var tekinn ölvaður undir stýri af lögreglunni á Suðurlandi þann 16. júlí síðastliðinn og mældist vínandamagn í blóði hans 1,5 prómill. Ekki hefur tekist að birta Stefáni ákæruna og því birtist hún í Lögbirtingablaðinu.

Samkvæmt ákærunni var Stefán tekinn að morgni sunnudagsins 16.  júlí þar sem hann ók um Eyrarbakkaveg við Stokkseyrarsel í sveitarfélaginu Árborg. Er þess krafist að Stefán verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands fimmtudaginn 26. október. Mæti Stefán ekki fyrir dóminn er litið á fjarvist hans til jafns við að hann viðurkenni brot sitt og verður dómur lagður á málið að honum fjarstöddum.

Stefán leikur nú um stundir með ungverska liðinu Pick Sze­ged, sem er annað af stórliðum þess lands. Í gær lék liðið við Csurgó í deildinni og vann 36-25 sigur. Stefán Rafn var markahæstur hjá Pick Szeged með sex mörk.

Hann er uppalinn í Haukum og sló ungur í gegn með liðinu. Hann samdi við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen í desember 2012 og hefur verið atvinnumaður síðan þá, varð meðal annars Danmerkurmeistari síðastliðið vor með Álaborg og keypti ungverska stórliðið hann í sumar.

Samkvæmt sektarreikni Samgöngustofu þá er sektin fyrir að aka með 1,5 prómill af vínanda í blóðinu 160 þúsund og svipting ökuleyfis í tvö ár. 

Ekki náðist í Stefán við vinnslu fréttarinnar í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×