Þá hefur hlutabréfaverð verð í frjálsu falli í Kauphöllinni í dag vegna pólitískrar óvissu líkt og Vísir greindi frá í morgun en nú hefur greiningardeild Arion banka tekið saman ýmsar tölur varðandi það hvað stjórnarslitin kosta.
Á meðal þess sem fram kemur í markaðspunktum greiningardeildarinnar er að stjórnarslitin þurrkuðu út 35 milljarða í Kauphöll Íslands föstudaginn 15. september, daginn eftir að ríkisstjórnin féll. Þá veiktist krónan um 1,3 prósent gagnvart evru þann dag.
„Lækkanir á verði skulda- og hlutabréfa á föstudaginn hafði talsverð áhrif á sparnað landsmanna en markaðsvirði skráðra hlutabréfa, ríkisbréfa, íbúðabréfa og sértryggðra skuldabréfa lækkaði um samtals rúma 32 milljarða króna. Þar af virðast eignir lífeyrissjóðanna hafa rýrnað að lágmarki um 14 ma.kr., en þeir eru langstærstu eigendur íslenskra verðbréfa. Ef þessar lækkanir ganga ekki til baka ef/þegar óvissunni léttir má því segja að stjórnarslitin hafi lækkað sparnað landsmanna um tugi milljarða króna,“ segir í markaðspunktunum.

Að auki lækkaði verð óverðtryggðra ríkisskuldabréfa svo að ávöxtunarkrafa þeirra hækkaði um allt að hálfu prósenti. Verðtryggð skuldabréf héldu hins vegar velli svo að verðbólguálagið rauk upp bæði til 5 og 10 ára.
„Verðbólguálag er einn af þeim mælikvörðum sem peningastefnunefnd Seðlabankans horfir til en það hefur hækkað um u.þ.b. eitt prósentustig á þremur mánuðum sem hefur lækkað raunstýrivexti miðað við verðbólguálag sem því nemur. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif þess á líkur á stýrivaxtalækkunum á næstunni: Þær eru minni en áður.
Hækkun ávöxtunarkröfu á markaði smitast á löngum eða skemmri tíma yfir í annað vaxtastig í landinu. Vextirnir sem ríkissjóði bjóðast mynda grunn fyrir annað vaxtastig og því má með mikilli einföldun segja að stjórnarslitin og óvissan sem tekur við hafi hækkað vaxtastig á Íslandi. Þessar breytingar á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa og óvissa vegna stjórnarslita hafði einnig mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn þar sem nær öll félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu og því lækkaði úrvalsvísitalan um 2,9% og hefur haldið áfram að lækka um samtals 5,7% þegar þetta er skrifað, sem má hugsanlega einnig rekja til pólitískrar óvissu.“
Nánar má lesa um hvað stjórnarslitin kosta samkvæmt greiningardeild Arion banka hér.