Viðskipti innlent

Hlutabréfaverð í frjálsu falli vegna pólitískrar óvissu

Hörður Ægisson skrifar
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um sjö prósent frá því að tilkynnt var um stjórnarslit síðastliðinn föstudag og hefur hún ekki verið lægri frá því í lok ágústmánaðar 2015.
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um sjö prósent frá því að tilkynnt var um stjórnarslit síðastliðinn föstudag og hefur hún ekki verið lægri frá því í lok ágústmánaðar 2015.
Gengi hlutabréfa í Kauphöllinni hefur hríðfallið í umtalsverðum viðskiptum í morgun og hefur Úrvalsvísitalan lækkað um tæplega tvö prósent. Markaðsvirði skráðra félaga á hlutabréfamarkaði hefur þannig lækkað um nærri 60 milljarða frá því að ríkisstjórnin sprakk í lok síðuðustu viku.

Verðbréfamiðlarar sem Vísir hefur rætt við segja lækkunina stafa af pólitískri óvissu og ótta fjárfesta um að niðurstaða boðaðra kosninga til Alþingis verði með þeim hætti að við taki ríkisstjórn með vinstri sinnaðar áherslur sem kunni að hafa neikvæð áhrif á eignamarkaði.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um sjö prósent frá því að tilkynnt var um stjórnarslit síðastliðinn föstudag og hefur hún ekki verið lægri frá því í lok ágústmánaðar 2015.  

Hlutabréf allra skráðu félaganna í Kauphöllinni hefur lækkað í verði í morgun. Þannig hefur meðal annars gengi bréfa í Högum, Icelandair, TM, Sjóvá, Símanum og fasteignafélögunum Reginn og EIK í öllum tilfellum lækkað í verði um meira en þrjú prósent það sem af er degi.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hafði lækkað um liðlega 3,5 prósent þegar mest var í morgun en sú lækkun hefur að hluta til gengið til baka. Þegar þetta er skrifað stendur Úrvalsvísitalan í 1.591 stigum og hefur lækkað um 1,9 prósent frá því að markaðir opnuðu í morgun.  

Þá hefur ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hækkað nokkuð í viðskiptum á skuldabréfamarkaði í morgun. Nemur hækkunin um 8 til 10 punktum í helstu óverðtryggðu ríkisskuldabréfaflokkunum sem þýðir að fjárfestar gera kröfu um aukið verðbólguálag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×