Menning

Það er eitthvað rautt undir nefinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Tyrfingur segir efni Kartöfluætanna lengi hafa verið búið að banka á dyrnar hjá honum.
Tyrfingur segir efni Kartöfluætanna lengi hafa verið búið að banka á dyrnar hjá honum. Vísir/Eyþór
Leikritið mitt Kartöfluæturnar fjallar um nokkuð skrautlega fjölskyldu í Kópavogi sem á ýmis mál óútkljáð innbyrðis. Lísa, aðalpersónan, vann fyrir Rauða krossinn sem hjúkrunarfræðingur í Kósóvó í stríðinu – hún er nagli. Býr núna í gamla fjölskylduhúsinu og hefur verið að gera á því endurbætur síðustu ár en gengur hægt, það er hálfur veggur hér og vantar skáphurð þar.

Lísa er rosalega flink í sínu fagi og öllu vön, eins og vænta má um konu sem kemur úr hjálparstarfi erlendis, en hún er kannski ekki alveg eins flink í að koma almennilega fram við dóttur sína og tækla vandamálin heima.

Þannig byrjar Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld að lýsa nýjustu afurð sinni – Kartöfluætunum – sem verður frumsýnd í Borgarleikhúsinu í kvöld, og hann heldur áfram.



„Dóttirin er strætóbílstjóri og þarf að fara til sérfræðings í Mjóddinni af því það er eitthvað rautt undir nefinu sem hún veit ekki hvað er. Hún fer svolítið mikið til lækna og í þetta sinn þarf hún að biðja mömmu sína að passa son sinn. Lísu finnst náttúrlega þessi rauði blettur ekki merkilegur miðað við vellandi svöðusárin sem hún hefur þurft að meðhöndla í Kósóvó. En þannig byrjar leikritið að dóttirin biður mömmu sína um pössun og þá hefst eiginlega strembið ferðalag þessara mæðgna í þá átt að ná saman.“

Þegar stjúpsonur Lísu kemur inn í myndina flækist málið verulega, að sögn Tyrfings. „Þá byrjar lítið fjölskyldustríð,“ lýsir hann. „Til að vinna það þarf Lísa að koma hreint fram og segja skilið við stóru stríðshetjuna, það er snúið.“

Leikarar í verkinu eru þau Sigrún Edda Björnsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson og Vala Kristín Eiríksdóttir og leikstjóri er Ólafur Egill Egilsson.

Tyrfingur kveðst svakalega heppinn með allt þetta lið. „Ég skrifaði leikritið fyrir Borgarleikhúsið með Sigrúnu Eddu í huga sem aðalpersónu og hún er á sviðinu eiginlega allan tímann. Edda Björg er dóttirin. Þær Sigrún hafa oft leikið mæðgur áður og maður finnur það alveg. Það er mikil hreyfing á sviðinu. Kartöfluæturnar er krefjandi sýning fyrir Sigrúnu Eddu en hún hefur gríðarlegt þol.“

Tyrfingur segir margar vinkonur sínar eiga hetjur fyrir mæður og þær hafi lýst fyrir honum því hlutskipti. „Ég var búinn að hlusta mikið á þessar vinkonur mínar áður en ég fór að skrifa og fattaði það þegar ég byrjaði á leikritinu að það var lengi búið að banka á dyrnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.