Erlent

Fellibylurinn María stefnir hraðbyri á Púertó Ríkó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í borginni San Juan í Púertó Ríkó í gær þar sem íbúar og yfirvöld búa sig undir komu Maríu.
Myndin er tekin í borginni San Juan í Púertó Ríkó í gær þar sem íbúar og yfirvöld búa sig undir komu Maríu. vísir/epa
Fimmta stigs fellibylurinn María er nú kominn til eyjunnar Vieques sem tilheyrir Púertó Ríkó en fellibylurinn stefnir nú hraðbyri þangað. Vindhraði Maríu er nú 280 kílómetrar á klukkustund.

María olli gríðarlegri eyðileggingu þegar hún gekk yfir eyjarnar Guadeloupe og Martinique í Karíbahafinu í gær. Tugir þúsunda heimila á eyjunum eru án rafmagns og þá er staðfest að að minnsta kosti einn lést á Guadeloupe.

Dómíníka var fyrsta eyjan sem varð fyrir barðinu á Maríu. Erfitt hefur reynst að fá fregnir þaðan vegna rafmagns-og símaleysis. Óstaðfestar fregnir herma þó að sex hafi látist og 90 prósent bygginga á eyjunni hafi orðið fyrir skemmdum þegar fellibylurinn gekk yfir.

Ricardo Rossello er ríkisstjóri í Púertó Ríkó. Hann segir að yfirvöd á eyjunni hafi nýlega gert áætlanir sem gerðu ráð fyrir að tveir fellibyljir myndu skella þar á með stuttu millibili. Fyrr í þessum mánuði gekk fellibylurinn Irma yfir eyjarnar í Karíbahafi og olli mikilli eyðileggingu og töluverðu manntjóni.

„Sem betur fer þá undirbjuggum við okkur fyrir þetta. Við vorum að hugsa um að hér gætu skapast alveg fáránlegar aðstæður og ein af þeim var að hér á Púertó Ríkó gætum við fengið tvo fellibylji með afar stuttu millibili,“ segir Rossello en bætir við:

„Þetta er mjög hættulegt. Þú getur byggt upp innviði á ný en þú færð aldrei þá sem farast í svona hamförum til baka. Við munum því einbeita okkur að því næstu 72 tímana að bjarga mannslífum.“

Yfirvöld óttast að rústir og annað sem Irma eyðilagði á Púertó Ríkó muni nú valda enn meiri skaða þegar María gengur yfir. Þá er áhyggjuefni að mikil úrkoma getur valdið aurskriðum sums staðar á eyjunni. Margir íbúa annarra Karíbahafseyja hafa flúið undan Irmu og Maríu síðustu daga og vikur og farið til Púertó Ríkó. Hefur hundruðum neyðarskýla verið komið upp á eyjunni.


Tengdar fréttir

Meira tjón fram undan vegna Mariu

Þök rifnuðu af húsum á Dóminíku og mikil flóð dundu á Guadeloupe í Karíbahafi í gær þegar fimmta stigs fellibylurinn Maria gekk yfir. Búist er við frekara tjóni í dag. Vindhraði Mariu jókst óvenjuhratt vegna hitastigs sjávar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×